Jarðstrengur samrýmist stefnu stjórnvalda

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, handsala …
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, handsala samkomulag um aðkomu stjórnvalda að lagningu jarðstrengs á Kili í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breið sátt er um lagningu jarðstrengs í jörð meðfram sunnanverðum Kjalvegi, en framkvæmdin samræmist áætlun stjórnvalda á mörgum sviðum að sögn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Ákvörðunin um lagningu jarðstrengsins og ljósleiðara samhliða Kjalvegi upp að Hveravöllum var kynnt í höfuðstöðvum RARIK í dag. Verk­efnið hef­ur verið nefnt „Orku­skipti á Kili“ og verður stór áfangi í lofts­lags- og ör­ygg­is­mál­um á há­lend­inu en kostnaðurinn er um 300 milljónir króna. Stefnt er að því að hefja lagn­ingu strengs­ins um mánaðamót­in júlí/​ág­úst í sum­ar og að verk­inu ljúki í haust.

Katrín kynnti á fundinum ákvörðun stjórnvalda sem skuldbinda sig til þess að tryggja verkefninu allt að 100 milljónir á næstu tveimur árum, en það samræmist stefnu stjórnvalda á margan hátt. 

„Þetta samrýmist í fyrsta lagi okkar stefnu um orkuskipti í samgöngum, en líka að byggja upp sjálfbæra ferðamennsku. Við viljum styðja við ferðaþjónustuna að bjóða upp á náttúruupplifun sem er um leið í takt við umhverfið, án þess að spúa út mengandi efnum á meðan. Í þriðja lagi er þetta svo öryggismál, þar sem lagning ljósleiðara samhliða jarðstreng stórbætir fjarskiptaöryggi þar sem aukinn fjöldi ferðamanna fer um Kjöl,“ sagði Katrín við mbl.is að fundi loknum.

Fyrirhuguð lagnaleið jarðstrengs með Kjalvegi.
Fyrirhuguð lagnaleið jarðstrengs með Kjalvegi. Mbl.is

Myndum aldrei leggja háspennulínur

Katrín sagði að verkefnið væri óumdeilt, en að því hafa margir ráðherrar og ráðuneyti komið enda fellur það í marga málaflokka. Það sé að frumkvæði ferðaþjónustuaðila og sveitarfélaga á svæðinu, sem leituðu til stjórnvalda fyrir þá viðbót sem þurfti til að hægt væri að ráðast í verkið. Katrín tekur undir að málið væri umdeildara ef ekki væri um að ræða jarðstreng.

„Algjörlega, og það er forsendan fyrir þessu. Við værum ekki að leggja háspennulínur þarna yfir,“ sagði Katrín.

Aðspurð hvort tenging hálendisins við rafdreifikerfi myndi leiða til þess að það að ferðast um ósnortna náttúru á hálendinu missi sjarma sinn sagði Katrín:

„Fyrir mér er það ákveðinn galli, þar sem mér finnst frábært að vera stundum ótengd. En þá er það bara okkar sjálfsagi, að geta líka slökkt á símanum. En ef eitthvað kemur upp á er líka gott að geta kveikt á honum og nálgast hjálp,“ sagði Katrín Jakobsdóttir við mbl.is, en jarðstreng­ur­inn mun auka ör­yggi með stöðugra sam­bandi við viðbragðsaðila.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpar fund RARIK um lagningu jarðstrengs á …
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpar fund RARIK um lagningu jarðstrengs á Kili í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Möguleiki að hækka afkastagetu

Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, sagði við mbl.is að aðkoma stjórnvalda hafi verið forsenda fyrir því að hægt væri að ráðast í verkefnið. Fjármögnunin byggist á því að aðilar sem þarna eru greiða fyrir eigin notkun, en RARIK bæti svo ofan á það.

Hvað flutningsgetu varðar sagði Tryggvi að möguleiki væri fyrir hendi að auka hana enn frekar ef þörf yrði á.

„Þörfin þarna er um 250 kW, en heildar afkastageta strengsins er að óbreyttu 700 kW, en við getum hækkað hana upp í 1,5 MW. Svo við höfum umfram möguleika, með smá tilkostnaði,“ sagði Tryggvi, en ekki eru áform um að halda áfram með strenginn norður allan Kjöl.

„Það eru ekki áform um það núna. Þessi strengur verður orðinn það langur að við þurfum aðgerðir til þess að fullnýta afkastagetu hans. Það væri þá frekar að farið yrði frá Blöndu[virkjun] og suður,“ sagði Tryggvi.

Fyrirhuguð lagnaleið jarðstrengs með Kjalvegi, auk verndarsvæða í kring.
Fyrirhuguð lagnaleið jarðstrengs með Kjalvegi, auk verndarsvæða í kring. Ljósmynd/RARIK

Hafa skoðað fornminjar á svæðinu

Spurður hvort verkefnið sé óumdeilt sagði Tryggvi að erfitt væri fyrir sig að svara því, en það hafi verið óumdeilt þegar fyrsti áfangi var lagður frá Brúarhvammi að Bláfellshálsi. Hann á því ekki von á deilum í kringum verkefnið.

„Við plægjum þetta niður, svo umhverfisspjöll eru lítil. Við sneiðum framhjá öllum verndarsvæðum og við höfum skoðað fornminjar. Það er verið að útrýma olíunotkun og þegar strengurinn hefur verið lagður á varla neitt að sjást. Við förum nánast alveg með Kjalvegi og erum því ekki í óröskuðu svæði,“ sagði Tryggvi.

En er aukinn krafa um að hálendið verði rafvætt enn frekar?

„Ég held að krafan verði sú að útrýma skuli dísilvélum smátt og smátt uppi á öræfum. Það eru fjallaskálar og vaxandi notkun þeirra sem kallar á rafmagn. Fram til þessa hefur þurft að nota dísilvélar, en krafan er að falla frá því,“ sagði Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, sagði við mbl.is

Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á …
Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á fundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert