Greiða atkvæði um 14 frumvörp

Þingfundur hófst kl. 10 í morgun.
Þingfundur hófst kl. 10 í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingfundur hófst að nýju klukkan 10 í morgun. Á dagskrá þingsins eru 47 mál þar af verða greidd atkvæði um 14 lagafrumvörp. Þingmenn virðast ná að malla smám saman niður málalistann en seinni umræða um þriðja orkupakkann er enn ekki lokið. 

Þingfundur hófst á 2. umræðu um Höfðaborgarsamninginn um alþjóðleg tryggingarréttindi í hreyfanlegum búnaði og bókun um búnað loftfara. Með honum er meðal annars stofnað til alþjóðlegra réttinda eigenda, lánveitenda og leigusala í flugvélum, flugvélahreyflum og öðrum flugvélatengdum hlutum og þessi réttindi eru viðurkennd í öllum samningsríkjum. 

Seinna í dag verður framhald af seinni umræðu um þriðja orkupakkann. Á mælendaskrá eru sjö þingmenn og óhætt er að segja að þau andlit séu öll kunnugleg þegar kemur að umræðu um þriðja orkupakkann. Þess má geta að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins heldur sína 45. ræðu undir þeim lið. 

Seinna í dag verða greidd atkvæði um lagafrumvörpin 14. Þar á meðal er frumvarp um lækkun virðisaukaskatts á tíðarvörum og getnaðarvörnum en þetta frumvarp var lagt fram óbreytt frá árinu 2018.  

Í gær lauk þingfundi klukkan tæplega 11 eftir rúman hálfan sólarhring. Síðasta mál á dagskrá í gær var umræða um frumvarp um Lýðskóla.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert