Skýla sér bak við „lagatæknilega fimleika“

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. mbl.is/Hari

„Það er hörmulegt að fyrirtækið haldi áfram þessum leik að skýla sér á bak við einhverja lagatæknilega fimleika,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, í samtali við mbl.is. Hann gefur lítið fyrir sáttaumleitanir forsvarsmanna Eldum rétt.

Málið snýst um laun fjög­urra starfs­manna sem unnu hjá Eld­um rétt í gegn­um starfs­manna­leig­una Menn í vinnu en samkvæmt Eflingu voru mennirnir látnir sæta þvingunum, vanvirðandi meðferð og brotið var á ýms­um rétt­ind­um þeirra í sam­ræmi við kjara­samn­inga.

Ákveðin tækni sem hefur verið slípuð til síðustu misseri

Viðar segir röksemdafærslu Eldum rétt þá sömu og starfsmannaleigan Menn í vinnu hafi sett fram. Hann segir það hafa legið fyrir frá byrjun málsins að misnotkunin sem mennirnir hafi verið beittir byggi á því að gefa út launaseðla sem líti rétt úr á pappírnum.

„Þetta er ákveðin tækni sem aðilar í starfsmannaleigubransanum hafa verið að slípa og fullkomna síðustu misseri,“ segir Viðar. 

Viðar segir röksemdafærslu Eldum rétt þá sömu og starfsmannaleigan Menn …
Viðar segir röksemdafærslu Eldum rétt þá sömu og starfsmannaleigan Menn í vinnu hafi sett fram. mbl.is/​Hari

Efling fer fram á 750 þúsund krónur á mann í miskabætur

Fram kom í yfirlýsingu Eldum rétt til fjölmiðla í morgun að Efling hafi hafnað öllum frekari tillögum fyrirtækisins til að ljúka málinu á fundi á föstudag. „Ég er ekki í því að segja beint frá því hvað aðrir segja við mig í trúnaði á fundum,“ segir Viðar, spurður um tillögurnar, og vill að Kristófer Júlíus Leifsson, einn stofnenda Eldum rétt, svari fyrir þær. 

„Ég get sagt hvað við lögðum til. Við lögðum til frest sem fól í sér að fyrirtækið tæki ábyrgð á vangoldnum launum, ólögmætum frádrætti, hluta í lögfræðikostnaði og síðan ákveðna bótaupphæð vegna þeirra þátta í framkomunni við þessa menn sem eru í raun ekki mælanlegir í krónum og aurum og komu augljóslega ekki fram á launaseðlinum. Það er að segja þvingunin, nauðungin og niðurlægingin sem að okkar mati er stóra málið í þessu öllu saman,“ segir Viðar.

Upphæðin er 750 þúsund á mann í miskabætur; alls þrjár milljónir króna en Efling fer fram á að Eldum rétt greiði alls 4,4 milljónir vegna málsins. 

„Þetta er eitthvað sem við erum að bjóða þeim eftir að þeir höfnuðu okkar upprunalegu kröfu, ólíkt hinum þremur notendafyrirtækjunum sem öll féllust strax á að gera hreint fyrir sínum dyrum,“ segir Viðar og heldur áfram:

„Ef hann [Kristófer] vísar í það að hann telji sig hafa lagt fram eitthvert kostaboð á þessum fundi þá er það ekki okkar mat á því sem var lagt fram þar.“

Efling og Eldum rétt virðast bæði standa fast á sínu …
Efling og Eldum rétt virðast bæði standa fast á sínu og lausn ekki í sjónmáli. mbl.is/Hari

Siðlaust að senda tölvupósta til fjölmiðla

Með yfirlýsingu Eldum rétt í morgun fylgdu tölvupóstsamskipti Viðars og Kristófers vegna málsins. Viðar segist ekki hafa áhyggjur af því að þær séu sendar fjölmiðlum, enda hafi Efling ekkert að fela.

„En jú, það er auðvitað siðlaust að senda tölvupóstsamskipti milli manna í fjölmiðla og eitthvað sem ég myndi ekki gera.“

Efling og Eldum rétt virðast bæði standa fast á sínu og lausn ekki í sjónmáli. Viðar segir að stefna Eflingar á hendur Eldum rétt standi en búið er að þingfesta hana. 

„Þegar Kristófer óskaði eftir fundi með okkur í vikunni þá töldum við að það væri til þess að ná fram sátt í málinu,“ segir Viðar og bætir við að Efling hafi þá áætlað að draga stefnuna til baka. 

„Ég spyr mig í dag hver tilgangurinn var með því að Kristófer setti sig í samband við okkur. Það er enginn raunverulegur áhugi á því að leiða málið til lykta á sanngjarnan hátt hjá þeim. Þau telja sig ekki bera neina ábyrgð á málinu og tónninn er svona nánast að það hafi ekki átt sér stað neitt réttindabrot gagnvart þessum mönnum og ef svo er að þá komi það þeim ekki við,“ segir Viðar en með sama áframhaldi verður málið leitt til lykta fyrir dómstólum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert