Flæddi yfir báða varnargarðana á Flateyri

Flóðið úr Skollahvilft fór að hluta yfir varnargarða, rétt eins …
Flóðið úr Skollahvilft fór að hluta yfir varnargarða, rétt eins og flóðið úr Innra-Bæjargili. Þetta kallar á endurmat á virkni varnargarðanna á Flateyri og endurskoðun á hættumati, sem gert var árið 2004, að sögn Veðurstofunnar. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Bæði snjóflóðin sem féllu á Flateyri í gærkvöldi fóru að hluta yfir varnargarða, en að þessu komust snjóathugunarmenn og sérfræðingar Veðurstofu Íslands sem könnuðu snjóflóðin á Flateyri í dag eftir að hafa komið þangað með varðskipinu Þór. Fjallað er um þetta á vef Veðurstofunnar.

Áður hafði verið ljóst að flóðið sem féll úr Innra-Bæjargili hefði farið yfir vestari varnargarðinn að hluta, en það flóð hafnaði á íbúðarhúsi við Ólafstún þar sem unglingsstúlku var bjargað úr herbergi sínu eftir að hafa verið í um 40 mínútur undir snjófargi í rúminu.

Tvö snjóflóð féllu á Flateyri seint í gærkvöldi og fóru …
Tvö snjóflóð féllu á Flateyri seint í gærkvöldi og fóru þau bæði yfir ofanflóðavarnargarða að hluta. mbl.is/Kristinn Garðarsson

Meira hafi jafnvel flætt yfir Skollahvilftargarðinn

Sérfræðingar segja að flóðið úr Skollahvilft hafi einnig farið yfir eystri varnargarðinn að hluta og segir á vef Veðurstofu Íslands að vísbendingar séu um að meira hafi farið yfir þann varnargarð en þann vestari, en niðurstöður mælinga liggja ekki endanlega fyrir.

Kallar á endurmat á virkni varnargarðanna

„Út frá þeim upplýsingum sem liggja nú fyrir er áætlað að flóðin á Flateyri í gær kunni að vera sambærileg að stærð við flóðið sem féll úr Skollahvilft í október 1995. Flóð yfir varnargarðana á tveimur stöðum nú kalla á endurmat á virkni varnargarðanna á Flateyri og þá um leið endurskoðun á hættumati sem gert var 2004,“ segir á vef Veðurstofunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert