Losuðu um 100 bíla á Öxnadalsheiði

Fjöldi bíla bíður eftir því að komast á Öxnadalsheiðina.
Fjöldi bíla bíður eftir því að komast á Öxnadalsheiðina. mbl.is/Þorgeir

Losa þurfti um 90-100 bíla sem sátu fastir á Öxnadalsheiði og í Öxnadal í dag. Vonskuveður er á heiðinni, 5 gráða frost og 15 metrar á sekúndu en vind hefur þó lægt frá því hann náði hámarki um klukkan 15.

Í samtali við mbl.is segir Halldór Halldórsson hjá aðgerðastjórn björgunarsveitanna á Norðurlandi eystra að 56 manns á 16 ökutækjum hafi komið að björgun. Björgunarsveitarmennirnir koma frá fjórum sveitum, Súlum á Akureyri, Dalbjörg í Eyjafirði, Tý á Svalbarðsströnd og Varma í Varmahlíð.

Björgunarsveitir í Varmahlíð.
Björgunarsveitir í Varmahlíð. mbl.is/Þorgeir

Fyrsta útkall af Öxnadalsheiði barst um klukkan hálftvö í eftirmiðdaginn og segir Halldór að stuttu síðar hafi verið tekin ákvörðun um að loka heiðinni. Greiðlega hefur gengið að losa bíla síðan þá og hefur einungis þurft að skilja örfáa bíla eftir í snjónum. Þá er stefnt að því að opna heiðina að nýju von bráðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert