Leggur til tíföld listamannalaun

Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður Samfylkingarinnar vill að tífalt fleiri listamenn …
Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður Samfylkingarinnar vill að tífalt fleiri listamenn fái listamannalaun. Það myndi auka útgjöldin því sem nemur, úr 650 milljónum í 6,5 milljarða á ári fyrir ríkissjóð. mbl.is/Hari

Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður Samfylkingarinnar leggur til að ríkið greiði tífalt fleiri listamönnum listamannalaun á komandi tímum en verið hefur, til þess að mæta miklu atvinnuleysi sem myndast vegna kórónuveirufaraldursins.

Sem stendur fá 325 listamenn (af 1.544 umsækjendum) rúmlega 407.000 í laun í allt frá þremur mánuðum til tólf á ári. Það gera 650 milljónir á ári fyrir ríkissjóð. Í grein á Vísi leggur Ágúst Ólafur til að fjöldi þessara launþega verði tífaldaður, þannig að þeir yrðu um 3.500, og gjöldin fyrir ríkissjóð yrðu því 6,5 milljarðar.

„Til að setja þessa tölu í samhengi,“ skrifar Ágúst Ólafur, „er gott að hafa í huga að hvert 1%-stig í auknu atvinnuleysi, um 2.000 manns, kostar ríkissjóð 6,5 milljarða kr. eða það sama og kostar að tífalda listamannalaunin.“

Hann heldur því fram að það muni því spara hinu opinbera fé, frekar en hið gagnstæða, að útgjöld séu aukin. Þar að auki skili aukin umsvif listamanna miklum fjármunum í ríkissjóð.

Ágúst Ólafur setur þessa tillögu fram í ljósi frétta sem berast af mjög bágri stöðu listamanna. Sú staða virðist vera að versna, þegar allt lítur út fyrir að helstu menningarviðburðir langt fram eftir ári geti ekki átt sér stað með hefðbundnu sniði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert