Teiknaði þríeykið í klukkustundavís

Hér má sjá teikninguna af Ölmu sem Svava sendi henni. …
Hér má sjá teikninguna af Ölmu sem Svava sendi henni. Svava segir munnsvipinn sem hér má sjá einkennandi fyrir Ölmu. Teikning/Svava Dögg

Svava Dögg Guðmundsdóttir hefur setið við að undanförnu og teiknað þríeykið svokallaða, Ölmu Möller landlækni, Víði Reynisson yfirlögregluþjón og Þórólf Guðnason sóttvarnalækni, auk Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans. Svava teiknar í allt að 16 klukkustundir samfleytt þessa dagana og hafa viðbrögð við afrakstrinum, sem hún deilir á Facebook, ekki látið á sér standa.

Með hverri og einni teikningu reynir Svava að varpa ljósi á persónuleika „módelsins“.

„Ég valdi ekki endilega bestu myndirnar af þeim heldur þær myndir sem mér fannst sýna persónuleikaeinkenni þeirra best,“ segir Svava í samtali við mbl.is og nefnir dæmi:

„Eins og munnsvipurinn á Ölmu sem er svo einkennandi fyrir hana og það þegar Þórólfur hallar höfðinu örlítið fram og er hugsi.“

Svava valdi mynd af Þórólfi þar sem hann hallar höfðinu …
Svava valdi mynd af Þórólfi þar sem hann hallar höfðinu örlítið og er hugsi. Teikning/Svava Dögg

Augnsvipur Víðis kveikti teikniþörf

Svava horfir daglega á upplýsingafundi almannavarna en hún átti sífellt erfiðara með að fylgjast með fundunum eftir því sem leið á samkomubann og einangrun. 

„Ég er með mikinn athyglisbrest svo hugur minn fór úr einu í annað og ég átti erfitt með að fylgjast með fundunum. Ég ákvað því að teikna, ég fór að skissa og krota og fór svo að teikna hluta af fólkinu sem var á fundunum, ekki fólkið sjálft. Ég teiknaði augun á þessum og nefið á öðrum og útfærði þetta einhvern veginn.“

Svava Dögg Guðmundsdóttir.
Svava Dögg Guðmundsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Við áhorfið einn daginn tók Svava eftir augnsvipi Víðis og hugsaði með sér að það væri skemmtilegt að teikna hann.

„Ég var ekki alveg nógu ánægð með hann þar sem ég hafði bara verið að skissa annað slagið. Ég sýndi vinkonu minni myndina og hún hvatti mig til að sýna fólki sem ég var ekki alveg viss um að væri góð hugmynd til að byrja með. Svo horfði ég á upplýsingafund sama dag og þá var afmælisdagurinn hans Víðis. Þá hugsaði ég með mér að það væri kannski bara sniðugt að deila myndinni. Fólk var mjög hrifið. Ég fékk svo mikinn móral yfir því að hafa teiknað hann fyrst en ekki Ölmu, aðallega vegna jafnréttissjónarmiða svo ég ákvað að ég myndi líka teikna Ölmu.“

Svövu fannst augnsvipur Víðis áhugaverður og ákvað því að teikna …
Svövu fannst augnsvipur Víðis áhugaverður og ákvað því að teikna yfirlögregluþjóninn. Teikning/Svava Dögg

Svava tók sér tvo daga í að teikna Víði en sat þó ekki við allan tímann. Hún segir að teikningin af Víði hafi verið erfiðust þar sem hún var ekki í jafn góðri þjálfun og nú. 

„Núna get ég setið nánast samfleytt í 16 klukkustundir og bara gleymi ég mér í þessu. Ég geri eiginlega ekkert annað en að teikna þessa dagana.“

Fékk viðbrögð frá landlækni og forstjóra Landspítalans

Svava hefur deilt myndunum með Ölmu sem hefur í það minnsta sýnt Víði hans mynd. Fékk Svava þakkir fyrir. Hún sendi sömuleiðis mynd á Pál sem þakkaði henni kærlega fyrir og þótti myndin falleg. Ætlun Svövu er að teikna einnig einhverja þeirra táknmálstúlka sem hafa staðið vaktina ásamt þríeykinu á fleirum. Þá hefur hún hugsað sér að gefa Þórólfi sína mynd á pappír. 

Spurð hvort myndirnar séu á einhvern hátt þakkarvottur fyrir vel unnin störf segir Svava: „Það er eiginlega pínu þannig líka. Mér finnst svo þægilegt hvað þau eru yfirveguð og róleg.“

Teikning/Svava Dögg
mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert