Verði eins og hjá „svívirðilegustu“ félögunum

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/​Hari

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, veltir fyrir sér málflutningi stjórnenda Icelandair um samkeppnishæfni í tengslum við kjaraviðræður flugfélagsins við starfsfólk sitt.

Ragnar Þór spyr sig í Facebook-færslu hvaða samkeppni er verið að tala um og hvort fólk eigi að sætta sig við að vinnumarkaðurinn verði endurreistur á forsendum fjármagns og stjórnenda þess.

„Hvað ef samkeppnishæfnin þýðir að launakjörin fari á par við það sem gerist hjá svívirðilegustu lággjaldaflugfélögunum sem stunda gerviverktöku, skattaundanskot, stórfelld brot á kjarasamningum og mannréttindum og beinlínis þrælkun á starfsfólki sem er svo algjörlega ótryggt í vinnu,“ skrifar hann.

„Öllu er svo úthýst til landa sem gera litlar sem engar kröfur um skatta á stórfyrirtæki eða velferð starfsfólks.“

Icelandair.
Icelandair.

Eiga ekki að láta kúga út úr sér launalækkanir

Í framhaldinu spyr hann hvort fólk geti sætt sig við að afsala sér réttindum sem hefur tekið áratugi að ná fram í nafni samkeppnishæfni.

„Samkeppni um hvað? Verstu lífsgæðin fyrir mestu vinnuna? Við ættum miklu frekar að koma í veg fyrir að slík fyrirtæki fái að fljúga til landsins eða stunda hér viðskipti, neita þeim um afgreiðslu á flugvöllunum okkar eða fyrirtækjum að selja vörur sínar á íslenskum markaði nema að kjarasamningar og grundvallar mannréttindi séu virt,“ skrifar Ragnar Þór og bætir við að starfsfólk Icelandair eigi ekki að láta kúga út úr sér stórfelldar launalækkanir og afsal réttinda.

„Stjórnendur koma og fara en starfsfólkið er og verður alltaf grunnstoð fyrirtækisins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert