Hafa ekkert í hendi nema bílinn

Andris er Lithái á sextugsaldri og búsettur á höfuðborgarsvæðinu.
Andris er Lithái á sextugsaldri og búsettur á höfuðborgarsvæðinu.

„Við höfum í rauninni aldrei hætt en þurftum að gera hlé vegna veðurs, þetta hefur verið erfiður vetur,“ segir Ásmundur Kristinn Ásmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, um leitina að Andris Kalvans, sem talið er að hafi týnst í Hnappa­dal á Snæ­fellsnesi 30. des­em­ber síðastliðinn. 

Eft­ir­grennsl­an og leit hófst þegar bóndi í Hnappa­dal veitti því eft­ir­tekt að bíll hafði staðið við Hey­dals­veg í tvo eða þrjá daga.

Enn þá er mikill snjór á leitarsvæðinu en í síðustu viku naut lögreglan aðstoðar sérsveitarmanna frá tæknideild ríkislögreglustjóra sem flugu drónum yfir gil og önnur svæði sem erfitt er að komast að. Lögreglan vinnur nú að því að fara yfir myndefnið en leit hefur engan árangur borið hingað til. 

Skipuleggja fjölmenna leit í sumar

„Um leið og snjórinn minnkar höldum við áfram leit. Við þurfum að finna hann,“ segir Ásmundur í samtali við mbl.is. Björgunarsveitarmenn komu einnig að leitinni í síðustu viku og óku sérsveitarmönnum að leitarsvæðinu. Til stendur að skipuleggja fjölmenna leit lögreglu og björgunarsveita þegar vel viðrar einhverja helgi í sumar. 

Leitarsvæðið afmarkast af Hnappadalnum öðrum megin og Hítardal hinum megin. Að sögn Einars Þórs Strand, formanns svæðis­stjórn­ar björg­un­ar­sveit­a á Vesturlandi beinist leitin mest að svæðinu við Hrútaborg og Tröllakirkju. 

„Við fylgjumst með veðri, um leið og við teljum réttar aðstæður leitum við betur. Við höfum ekkert í hendi annað en að bíllinn hans var þarna. Við vitum ekkert nákvæmlega hvert maðurinn fór. Það eru engin vitni til að segja okkur það,“ segir Ásmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert