Setji ekki reglur sem þau geta ekki fylgt

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir skiptar skoðanir vera innan flokksins um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í sóttvarnarmálum.

„Það eru skiptar skoðanir en ég get ekki svarað fyrir aðra í þeim efnum,“ segir Sigríður.

Hún og Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins hafa bæði sett spurningamerki við aðgerðir stjórnvalda og telja þær of strangar.

Yfirvofandi farsótt ekki í gangi

Sigríður tjáði sig stuttlega um málið um helgina. Spurð nánar út í það hvað hún vill sjá gert hér á landi segir hún að læknum á Landspítalanum beri saman um að fólk sé mun minna veikt núna en þegar kórónuveiran fór fyrst á stjá. Annar hópur sé að sýkjast, þar á meðal yngra fólk sem ráði betur við veiruna, auk þess sem fólk sem er viðkvæmt fyrir sé farið að passa sig meira en áður. Jafnframt viti menn ekki hvort veiran sé að breytast.

„Þá hlýtur maður að spyrja að það er ekki, eins og sóttvarnarlögin kveða á um, yfirvofandi farsótt,“ segir Sigríður, sem vill að menn einbeiti sér að því að geta tekist á við veikindin sem hljótast af veirunni en ekki að skima heilbrigt fólk á leið til landsins, nema þá í fræðilegum tilgangi til að fá tilfinningu fyrir því hversu útbreidd veiran er.

Heilbrigðisstarfsmaður á landamærunum.
Heilbrigðisstarfsmaður á landamærunum. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Röng forgangsröðun

Hún bendir á að búið sé að skima um 90 þúsund manns á landamærunum og um 30 hafi fundist jákvæðir með veiruna. „Menn hljóta að þurfa að horfast í augu við það að kannski er verið að forgangsraða rangt þarna í stað þess að skima þá sem líklegt er að séu veikir og alla þá í kringum þá,“ bætir hún við.

Þarna á hún við fólk sem sýnir einkenni og segir að því hafi verið haldið fram að fólk sem sýni ekki einkenni sé ekki að smita.

Sigríður segir að gera þurfi heilbrigðiskerfinu í víðum skilningi kleift að takast á við veiruna, koma sér upp ferlum ef hún berst til að mynda inn á dvalarheimili aldraða, rétt eins ferlar eru uppi ef nóróveirusýking eða inflúensa greinist. Áframhaldandi forvarnarstarf í sóttvörnum er einnig mikilvægt, að hennar mati.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir og Alma Möller landlæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir og Alma Möller landlæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Ekki tilefni til takmarkana á frelsi borgara

Hún segir engum tilgangi þjóna að setja miklar takmarkanir á landamærunum. Veirur sem þessar virði engin landamæri og þau lönd þar sem mestar takmarkanir og lokanir hafi verið hafi ekki farið betur út úr því í samanburði við lönd sem hafi ekki verið með neitt slíkt. Jafnframt nefnir hún að fólk sé almennt að ferðast minna, þar á meðal þeir sem eru veikir fyrir, og bætir við að hún hafi ekki heyrt Þórólf Guðnason sóttvarnarlækni bera til baka mat sitt frá því í vor um að lítil smithætta væri af ferðamönnum.

„Meginreglan hér er frelsi borgaranna og það þarf eitthvað stórkostlegt ef að það sé takmarkað að mínu mati,“ segir hún og telur ekki tilefni til slíkra takmarkana eins og staðan er í dag.

Ljósmynd/Landspítalinn/Þorkell Þorkelsson

Þarf að vera raunhæft

„Nýjar meðferðir og tölur yfir látna sýna að þetta er engin farsótt eða faraldur í þeim skilningi sem menn hafa lagt í það hugtak, þótt að sjálfsögðu sé þetta óhefðbundið og alvarlegra en inflúensa eða kvef. Aðgerðir þurfa líka að miðast við það hvað er raunhæft að ætlast til af fólki,“ segir hún bætir við að þeir sem setji reglurnar geti ekki einu sinni framfylgt tveggja metra reglunni. Nefnir hún í þessu samhengi Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála- og iðnaðarráðherra, sem hefur verið gagnrýnd fyrir að hafa virt sóttvarnarreglur að vettugi er hún fór út að borða með vinkonum sínum um helgina. „Þetta er þörf ábending um það að menn eiga ekki að setja reglur sem þeir geta ekki sjálfir fylgt.“

Sigríður segir tveggja metra regluna kveða á um að veitingastaðir og opnir staðir verði að geta boðið upp á tveggja metra regluna hjá fólki sem ekki býr saman. Ekkert sé kveðið á um að fólk sem ekki býr saman þurfi að hafa tveggja metra reglu á milli sín en þannig hafi sóttvarnaryfirvöld og stjórnvöld talað. „En þau hafa ekki einu sinni sjálf fylgt því eins og þú hefur tekið eftir á þessum blaðamannafundum,“ segir hún, „enda er þetta óraunhæft“.

Ríkisstjórnin er hún kynnti framhald efnahagsaðgerða vegna kórónuveirunnar í vor.
Ríkisstjórnin er hún kynnti framhald efnahagsaðgerða vegna kórónuveirunnar í vor. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vill sjá hvað ríkisstjórnin ber á borð

Alþingi hefst á nýjan leik eftir tíu daga. Aðspurð kveðst hún ekki ætla að leggja fram neina tillögu í tengslum við sóttvarnarmálin heldur vill hún sjá hvað ríkisstjórnin ætlar að bera á borð fyrir löggjafann.

Krafa um sóttkví ekki til æðri dómstóla

Sigríður veltir jafnframt fyrir sér með tilliti til laga og reglna þegar hringt er í fólk og því sagt að fara í sóttkví vegna þess að það hafi umgengist einhvern smitaðan. „Mér finnst hafa lítið farið fyrir umræðu um hvort almennar reglur um stjórnvaldsákvarðanir gildi í þessu tilviki. Viðkomandi virðist ekki eiga nein tök á að bera þessa ákvörðun undir æðri dómstóla. Það er svolítið umhugsunarvert.“

Hún heldur áfram og segir að hvorki lög né stjórnarskrá geri ráð fyrir að vald til að skerða réttindi borgara sé framselt til ráðherra eða sóttvarnaryfirvalda, sex mánuðum eftir að veiran fór á flug hér á landi.

„Það er hægt að skerða réttindi fólks ef almannaheill er undir en sú ákvörðun og mat á því lýtur sömu kröfum eftir sem áður og það þarf að vera málefnalegt, það þarf að vera meðalhóf og það þarf að gæta jafnræðis,“ segir Sigríður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert