Fleiri en 30 í sóttkví vegna smits í Hinu húsinu

30 starfsmenn Hins hússins hafa verið sendir í sóttkví vegna …
30 starfsmenn Hins hússins hafa verið sendir í sóttkví vegna kórónuveirusmits. mbl.is/Árni Sæberg

Rúmlega þrjátíu starfsmenn Hins hússins hafa verið sendir í sóttkví vegna smits sem greindist hjá starfsmanni. Verður því starfsemi í húsinu hætt fram til 2. september.

Þetta staðfestir Markús H. Guðmundsson, forstöðumaður Hins hússins, í samtali við mbl.is. Aðspurður segir hann einnig að smit starfsmannsins megi rekja til hópsmitsins á Hótel Rangá.

„Þetta er auðvitað mikið högg,“ segir Markús.

Í Hinu húsinu fer fram meðal annars fram frístundastarf fyrir ungmenni með fötlun og því ljóst að nokkuð mun mæða á foreldrum þeirra vegna þessa, en Markús segir að reynt verði að halda áfram frístundastarfi að einhverju leyti í gegnum fjarfundabúnað. 

„Við munum hugsanlega vinna með ungmennunum í gegnum netið líkt og við gerðum í vor. Síðan munum við nota vikuna til þess að sótthreinsa og skerpa á línum í starfinu,“ segir Markús. 

Skert starfsemi í bili 

„Við erum búin að upplýsa alla foreldra og forráðamenn um stöðuna. Við verðum að sætta okkur við skerta starfsemi í bili en við höfum lagt áherslu á að horfa til framtíðar varðandi verkefni, eins og til dæmis Músíktilraunir,“ segir hann. Starfsemin fari fram úti um alla borg og því hafi þjónustan þegar skerst vegna faraldursins.

„Að mínu mati höfum við staðið okkur vel til þessa. Síðan er þetta ekki bara spurning um hvort heldur hvenær aðstæður sem þessar koma upp,“ segir hann. Áður hafi verið rætt til hvaða bragðs skyldi taka ef smit greindist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert