Rúmlega 100 starfsmenn skólanna í sóttkví

Álftamýrarskóli.
Álftamýrarskóli. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

„Nei það er enginn með einkenni. Við erum að fylgjast með, erum öll í samskiptum bæði á Facebook og með tölvupósti. Það er enginn með einkenni nema kennarinn sem fór á Rangá,“ segir Guðni Kjartansson, aðstoðarskólastjóri Álftamýrarskóla, í samtali við mbl.is.

Greint var frá því í gær að allir starfsmenn Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla hefðu verið sendir í sóttkví eftir að einstaklingur sem kennir í báðum skólum greindist smitaður af kórónuveirunni eftir að hafa verið á Hótel Rangá.

Foreldrar fá ekki að koma inn í húsið

Í Álftamýrarskóla eru það 65 starfsmenn að sögn Guðna og hann telur um að þeir séu um 45 talsins í Hvassaleitisskóla. Hvorki nemendur né foreldrar þeirra þurftu að fara í sóttkví.

„Við vorum ekkert búin að vera í samskiptum við foreldra og börn. Börnin áttu að koma á morgun í fyrsta sinn og við höfum ekki leyft foreldra í marga mánuði inn í húsið,“ segir Guðni.

Skólasetningu Álftamýrarskóla hefur því verið frestað til 7. september enda var öllum starfsmönnum gert að fara í tveggja vikna sóttkví. Skólasetningu Hvassaleitisskóla, sem einnig átti að fara fram á morgun, fer þó fram nokkru fyrr, eða 2. september.

„Það var vegna þess að kennarinn var á fundi í Hvassaleiti fyrr í vikunni og það er talið frá þeim degi. Hann var síðast í Álftamýri á föstudag og það er talið frá þeim degi,“ útskýrir Guðni.

Þrír skólar í Reykjavík lokaðir

Þá var sömuleiðis greint frá því í gær að Barnaskóli Reykjavíkur sem rekinn er af Hjallastefnunni hafi þurft að skella tímabundið í lás eftir að smit greindist hjá kennara. Það eru því alls þrír skólar í Reykjavík lokaðir vegna kórónuveirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert