Skólasetningu frestað vegna smits

Hvassaleitisskóli í Reykjavík.
Hvassaleitisskóli í Reykjavík. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Komið hefur upp kórónuveirusmit hjá starfsmanni Hvassaleitisskóla í Reykjavík og þurfa starfsmenn skólans því að fara í sóttkví.

Vegna þessa hefur verið ákveðið í samráði við smitrakningateymi almannavarna og sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að loka skólanum tímabundið til og með 2. september.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem var send foreldrum barna við skólann.

Skólasetning mun því ekki fara fram á mánudaginn eins og gert var ráð fyrir.

Álftamýrarskóli.
Álftamýrarskóli. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

COVID-smit í Álftamýrarskóla

Kennslu hefur einnig verið frestað í Álftamýrarskóla vegna COVID-smitsins og er allt starfsfólkið komið í sóttkví.

Skólasetningu sem fara átti fram í skólanum hefur verið frestað til 7. september vegna smitsins, samkvæmt tilkynningu sem foreldrar við skólann fengu.

Skólanir verða í sambandi við foreldra

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg er greint frá því að smit hafi komið upp í Álftamýrarskóla, Barnaskóla Hjallastefnunnar og Hvassaleitisskóla.

„Skólasetningu sem ráðgerð var eftir helgi verður frestað af þeim sökum.  Skólarnir verða í sambandi við foreldra til að upplýsa þá frekar og veita leiðsögn um heimavinnu nemenda,“ segir í tilkynningunni.   

„Starfsemi frístundaheimila í Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla verður með óbreyttu sniði.“

Uppfært kl. 21.45:

Að sögn Bjarna Brynjólfssonar, upplýsingafulltrúa Reykavíkurborgar, var um einn starfsmann beggja skólanna að ræða sem fór á milli þeirra en í upphaflegri frétt mbl.is kom fram að starfsmennirnir væru tveir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert