Ófyrirsjáanleg og ósanngjörn veira

Víðir Reynisson á fundinum í morgun.
Víðir Reynisson á fundinum í morgun. Ljósmynd/Lögreglan

„Það reynir á þol og þrautseigju núna,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á upplýsingafundi almannavarna.

Hann sagði að það myndi taka nokkra daga fyrir fólk að aðlagast breyttum reglum í samfélaginu vegna kórónuveirunnar. Hann hvatti fólk einnig til að hjálpa smitrakningarteymi almannavarna við sína vinnu, þó svo að hann skildi það vel að fólki fyndist óþægilegt að segja frá því hvar það var og hverja það hitti.

„Það er bara ein leið áfram í þessu og það er samstaða,“ sagði hann.

„Við þurfum að horfa á þetta í litlum skrefum og taka hvert verkefni og sigra það.“

Hann bætti við: „Veiran er andstæðingurinn. Hún er ekki fyrirsjáanleg og hún er ekki sanngjörn. Við hins vegar höfum sýnt að við getum allt ef við stöndum saman.“

Hann hvatti fólk til stunda einstaklingsbundnar sóttvarnir og passa sig á sameiginlegum snertiflötum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert