„Ekki áhættunnar virði“

Alma Möller landlæknir.
Alma Möller landlæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Alma Möller landlæknir segir fólk vera að taka mikla áhættu sem segist vilja fá veiruna og „ljúka þessu af“ þannig að það þurfi ekki lengur að hafa áhyggjur af því að smitast.

Á upplýsingafundi í morgun sagði hún dæmi um að ungt og hraust fólk hefði veikst alvarlega og bætti við að langvinn einkenni vegna veirunnar væru nokkuð algeng og ekki væri vitað hversu lengi þau vara. „Ég held að það sé ekki áhættunnar virði.“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir bætti við að einstaklingar lægju núna á Landspítalanum á þrítugsaldri sem hefðu ekki verið með undirliggjandi áhættuþætti. „Það er ekki klippt og skorið að þó maður sé ungur og hraustur fari maður vel út úr þessari veiru.“

Farsóttarþreyta hefur myndast

Alma sagði flesta vera orðna mjög leiða á veirunni og svokölluð farsóttarþreyta hefði myndast. „Það er ekki hægt að gera hlutina þannig að allir séu sáttir,“ sagði hún og bætti við að eðlilegt væri að sumir upplifðu hertar aðgerðir sem órökréttar. Hún sagði þrautseigju og þolinmæði skipta öllu máli. „Við höfum þegar gengið í gegnum erfiða tíma í þessum faraldri og við gerðum það með glæsibrag,“ sagði hún og hvatti fólk til að láta farsóttina ekki stjórna sér heldur þyrftum við að stjórna farsóttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert