Faraldurinn er enn í vexti

Þórólfur Guðnason á upplýsingafundinum í dag.
Þórólfur Guðnason á upplýsingafundinum í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Kórónuveirufaraldurinn er enn í vexti. Ef ekki er gripið inn í gætum við farið að sjá alvarlegri faraldur hér á landi. Engin merki eru um að sjúkdómurinn sé vægari núna en hann var áður.

Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi.

59 einstaklingar greindust með veiruna innanlands í gær. 58% þeirra sem greindust voru í sóttkví við greiningu. Heldur fleiri sýni voru tekin í gær en fyrradag. Alls  hafa tæplega 770 einstaklingar greinst frá því að þessi bylgja hófst og þar er miðað við upphafsdaginn 15. september. 670 eru í einangrun.

Þórólfur segir faraldurinn vera í línulegum vexti en bætir við: „Á köflum finnst manni að hann sé að fara í veldisvöxt.“

Fimmtán liggja inni á Landspítala vegna Covid-19. Þrír eru á gjörgæslu og tveir á öndunarvél.

Aðeins þrír greindust með veiruna utan höfuðborgarsvæðisins í gær. Smit hafa komið upp á landinu á vinnustöðum, innan fjölskyldna, í vinahópum, á krám og á líkamsræktarstöðvum, þar á meðal hnefaleikastöð í Kópavogi.

Einnig eru að greinast einstaklingar á hjúkrunarheimilum eins og Eir og Hrafnistu. Þórólfi er ekki kunnugt um að fleiri smit hafi komið upp þar.

„Mikið óráð“ að sleppa landshlutum

Þórólfur segir eðlilegt að skiptar skoðanir séu um aðgerðirnar sem gripið hefur verið til, bæði að þær séu of harðar og of vægar. Á endanum þurfi að taka einhverja ákvörðun og segir hann mjög mikilvægt að menn komi sér saman um þá ákvörðun sem hefur verið tekin.

Hann segir að gagnrýnt hafi verið að takmörkunin sé látin ná til alls landsins. Undanfarið hafi Covid-19 verið að greinast í öllum landshlutum. Segist hann telja það „mikið óráð“ að sleppa einhverjum landshlutum. Aðgerðirnar núna muni leiða til þess að við getum kveðið faraldurinn niður á fullnægjandi máta.

Allir standi saman

Þórólfur segist um helgina hafa fengið fyrirspurnir og beiðnir um undanþágur frá aðgerðunum. Hvetur hann einstaklinga og fyrirtæki til að reyna að halda að sér höndum við að biðja um undanþágur því ef allir séu að gera það muni aðgerðirnar ekki ganga upp.

Þórólfur biðlar til landsmanna um að standa saman um aðgerðirnar. „Það sem skiptir mestu máli er að menn standi saman. Þannig náum við árangri og þannig mun okkur takast að kveða þennan faraldur núna niður á fullnægjandi máta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert