Guðmundur á Núpum dæmdur

Plaza bygg­ing­in í New York er við Central Park al­menn­ings­garðinn …
Plaza bygg­ing­in í New York er við Central Park al­menn­ings­garðinn og stutt frá Trump Tower. Í bygg­ing­unni eru meðal ann­ars tvær íbúðir sem Guðmund­ur reyndi að leyna skipta­stjóra við gjaldþrot sitt. Skjáskot/Google

Guðmundur A. Birgisson, sem oft er kenndur við bæinn Núpa í Ölfusi, var hinn 1. október dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir um 300 milljóna króna skilasvik og peningaþvætti í tengslum við gjaldþrot hans. Hann játaði sök þegar málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands í síðasta mánuði.

Guðmund­ur var meðal ann­ars ákærður fyr­ir að halda frá skipta­stjóra fast­eign­um á Spáni, Flórída og í New York, lista­verki og eign í banda­rísk­um fjár­fest­inga­sjóði.

Guðmund­ur var úr­sk­urðaður gjaldþrota í lok árs 2013. Þar áður hafði hann verið mjög umsvifa­mik­ill í ís­lensku at­vinnu­lífi og var hann meðal ann­ars hlut­hafi í Slát­ur­fé­lagi Suður­lands, HB Granda, Hót­el Borg og fleiri fé­lög­um. Þá var hann einn af for­ystu­mönn­um fé­lags­ins Lífs­vals, sem keypti jarðir um allt land á ár­un­um fyr­ir hrun. Fé­lagið komst seinna í eigu Hamla, dótt­urfé­lags Lands­bank­ans.

Þrota­bú Guðmund­ar fékk viður­kenn­ingu gjaldþrota­skipt­anna í Banda­ríkj­un­um í júlí árið 2015 og komst þannig yfir eign­ir Guðmund­ar er­lend­is. Við sölu þeirra feng­ust 293,9 millj­ón­ir, auk þess sem hann hafði fengið arð upp á 70.647 banda­ríkja­dali vegna fjár­fest­inga í Banda­ríkj­un­um á ár­un­um 2014 og 2015.

Íbúð við turn Trumps

Sem fyrr seg­ir voru eign­ir Guðmund­ar ým­is­kon­ar sem hann hafði ekki gefið upp við gjaldþrota­skipt­in. Þannig var hann beinn eig­andi fast­eign­ar í Alican­te á Spáni. Hafði Guðmund­ur áður verið eig­andi henn­ar, en af­salað sér eign­inni til fé­lags­ins Palm Tree Associa­tes LLC (sem áður hét Gummi Associa­tes LLC) og var í eigu Guðmund­ar. Þá átti Palm Tree, í gegn­um fé­lagið Gummi Bear Associa­tes Realty Comp­any LLC, allt að 75%, en minnst helm­ings­hlut, í tveim­ur íbúðum í svo­nefndri Plaza-bygg­ingu á Man­hatt­an í New York í Banda­ríkj­un­um. Stend­ur bygg­ing­in við Central Park, í næsta ná­grenni við the Ritz Carlt­on Central Park-hót­elið og Trump Tower.

Fram kom í ákær­u máls­ins að Guðmund­ur hefði ekki upp­lýst um eign­ar­hald sitt á fyrr­greind­um eign­um í skýrslu­töku hjá skipta­stjóra í byrj­un árs 2014 og þá hefði hann veitt rang­ar eða vill­andi upp­lýs­ing­ar um þær í tölvu­pósti til skipta­stjóra árið 2015, en spurt var sér­stak­lega um „íbúð í Nap­les Flórída“, „íbúðir í Plaza hót­el New York“ og „hús á Spáni“.

Jafn­framt var Guðmund­ur sagður í ákær­unni hafa ráðstafað eign­un­um eft­ir gjaldþrotið í því augnamiði að koma þeim und­an. Af­salaði hann meðal ann­ars eign­inni í Flórída til fé­lags­ins Pain­ted Pelican LLC sem var stofnað árið 2014 og Guðmund­ur var einnig raun­veru­leg­ur eig­andi að. Þá gerði hann einnig til­raun til nafna­breyt­ing­ar og breyt­ing­ar á gild­andi fé­lags­samþykkt­um Gummi Bear Associa­tes Realty Comp­any árið 2015. Seg­ir í ákær­unni að þær breyt­ing­ar hafi efn­is­lega falið í sér að rýra eða girða fyr­ir mögu­leika og úrræði þrota­bús­ins, í gegn­um yf­ir­vof­andi yf­ir­töku þess á Palm Tree Associa­tes, til að hafa áhrif á eða ráðstafa eign­un­um.

Dómari tók tillit til játningarinnar

Til viðbót­ar seldi Guðmund­ur lista­verk eft­ir hol­lenska list­mál­ar­ann Corneille í gegn­um upp­boðshúsið Christie's í Amster­dam fyr­ir 22 þúsund evr­ur og gaf ekki upp eign Palm Tree Associa­tes í banda­rísk­um fjár­fest­inga­sjóði. Var eign­in, miðað við upp­haf­legt eig­in­fjár­fram­lag árið 2006, að fjár­hæð 200 þúsund banda­ríkja­dal­ir. Var hann áður skráður fyr­ir eign­inni í eig­in nafni en flutti hana yfir á Gummi Associa­tes árið 2009. Af þess­ari verðbréfa­eign var reglu­lega greidd­ur út arður með ávís­un­um til Gummi Associa­tes á ár­un­um 2014 og 2015, sam­tals 88.500 dal­ir. Taldi Guðmund­ur þess­ar upp­hæðir fram sem arðgreiðslur fé­lags­ins á banda­rísk­um skatta­skýrsl­um. Inn­leysti Guðmund­ur sam­tals 70.647 dali af banka­reikn­ingi fé­lags­ins eft­ir að hann var úr­sk­urðaður gjaldþrota og þar til þrota­búið komst yfir eign­irn­ar.

Guðmund­ur var ann­ar um­sjón­ar­manna minn­ing­ar­sjóðs auðkon­unn­ar Sonju Zorrilla, en hún lést árið 2002 og er talið að eign­ir henn­ar hafi numið um tíu millj­örðum króna. Efnaðist hún vel á fjár­fest­ing­um á Wall Street, en sjóður­inn átti að styrkja lang­veik börn á Íslandi og í Banda­ríkj­un­um.

Í dómi héraðsdóms Suðurlands kemur fram að við ákvörðun refsingar hafi ekki verið hjá því litið að verulegur dráttur hafi orðið á rannsókn málsins, auk þess sem Guðmundur hafi játað brot sín.

Var hann því dæmdur í tveggja ára fangelsi sem fellur niður haldi hann almennt skilorð næstu tvö árin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert