Tekist á um hinn „grenjandi minnihluta“

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég þarf ekki leiðsögn frá Guðna Ágústssyni um tilfinningar íslenskra bænda til landsins og hálendisins,“ skrifar Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag (áskrifendur geta lesið hana hér). Þar svarar Steingrímur grein sem Guðni birti í blaðinu í vikunni, þar sem Steingrímur er m.a. gagnrýndur fyrir að hafa talað um „örlítinn grenjandi minnihluta“ á þingi í umræðum um stofnun miðhálendisþjóðgarðs. 

Steingrímur tekur fram, að hugur hans standi ekki til að hefja ritdeilu við Guðna, sem er fyrrverandi landbúnaðaráðherra, en hann segir jafnframt að það sé kannski ábyrgðarhlutur „að láta ómótmælt slíku samsafni af rökleysum og þvættingi sem fram kemur í greininni þegar nafn manns kemur þar fyrir innan um í hrærigrautnum.“

„Nú skuli reisa ríkisbáknið“

Guðni segir m.a. í greininni (áskrifendur geta lesið hana hér), sem birtist í Morgunblaðinu sl. miðvikudag undir yfirskriftinni „Örlítill grenjandi minnihluti“, að nú skuli „reisa ríkisbáknið í fullri alvöru á þjóðlendunni miðhálendi Íslands. Taka stjórnina af sveitarfélögunum og bændum og fela umsjána sérfræðingum í tröllabúðum, í alvöruríkisstofnun í Reykjavík. Sósíalisminn skal byrja til fjalla í frelsinu sem bændur og smalar þeirra þekktu einir í þúsund ár.

Gjafir eru ykkur gefnar, sagði Bergþóra forðum við karl hinn skegglausa og taðskegglingana syni sína, Skarphéðni rann allavega í skap. Nú kallar Steingrímur forseti, kominn í gervi gamla Steingríms, bændur, útivistarhópa og náttúruunnendur sem unna hálendinu eins og það er „örlítinn grenjandi minnihluta“, sem ætlar með heimsku að skjóta stærsta þjóðgarð í Evrópu úr hendi þjóðarinnar.“

Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra.
Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hér fyrir neðan má sjá upptöku frá þingfundi 8. desember sl. þar sem Steingrímur lét ofangreind ummæli falla. Kemur fram á mínútu 05:20.  

Grenjandi minnihluti sama og mikill minnihluti

Steingrímur tekur fram að samkvæmt hans norðlenska tungutaki eða málvitund þýði „grenjandi minnihluti = mikill minnihluti. Samanber einnig grenjandi stórhríð eða grenjandi rigning, sem sagt mikið af hvoru tveggja. Hefur ekkert með grát að gera og vonandi hefur Guðni ekki misskilið það.“

Þá segir Steingrímur að hann hafi ekki verið að vísa til bænda, ekki útivistarhópa, ekki náttúruunnenda „sem unna hálendinu eins og það er upplýsir Guðni, þegar ég talaði um hinn „grenjandi“, sem sagt „mikla“, minnihluta í minni ræðu. Það er Guðni sem í sinni dæmalausu grein flytur þessa aðila á einu bretti yfir í þann minnihluta sem ég var að vísa til. Ég var að vísa til þeirra 10% þátttakenda í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar 2018 sem lýstu sig andvíg eða mjög andvíg stofnun þjóðgarðs á hálendinu. Í sömu könnun lýstu um 63% sig hlynnt eða mjög hlynnt stofnun slíks þjóðgarðs.“ 

Þvættingur

Þá segir Steingrímur, að það sé þvættingur „sem hvergi á sér stoð í frumvarpinu um hálendisþjóðgarð að, eins og Guðni orðar það, og koma nú beinar tilvitnanir í grein hans; „taka eigi stjórnina af sveitarfélögunum og bændum“, að „ríkisstofnun í Reykjavík taki að sér afréttarlöndin, sekti og rukki alla unnendur hálendisins, reki bændur og sauðkindina til byggða“.“

Steingrímur segir, að sveitarfélögunum sé tryggð mjög sterk, í raun ráðandi staða í stjórnkerfi fyrirhugaðs þjóðgarðs.

„Ég þarf ekki leiðsögn frá Guðna Ágústssyni um tilfinningar íslenskra bænda til landsins og hálendisins. Ég smala með þeim hvert haust og hef farið margar ferðir ríðandi í hópi bænda um hálendið. Ég lít á bændur og aðra náttúruunnendur, útivistarfólk, veiðimenn, alla þá sem hafa yndi af ferðum um og dvöl á hálendinu hvort sem þeir notast við fæturna á sjálfum sér, fæturna á hestum, jeppa eða mótorhjól, gönguskíði eða vélsleða á vetrum sem samherja í þessu máli. Í því að vernda hálendi Íslands og skila því sem óspilltustu til komandi kynslóða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert