Danir bætast í hópinn

AFP

Dönsk heilbrigðisyfirvöld hafa ákveðið að bólusetja ekki fólk sem er 65 ára og eldri með bóluefninu frá AstraZeneca. Nágrannar þeirra í Svíþjóð og Noregi hafa tekið sömu ákvörðun. Upplýst verður um ákvörðun íslenskra yfirvalda á upplýsingafundinum klukkan 11. 

Bæði dönsk og norsk yfirvöld bera fyrir sig að ekki liggi fyrir nægjanlegar upplýsingar um virkni bóluefnisins á elstu aldurshópana. 

Forstjóri Lýðheilsustofnunar Noregs (FHI), Camilla Stoltenberg, greindi frá ákvörðuninni í morgun og segir að hún hafi ekki verið tekin vegna þess að bóluefnið virki ekki á eldra fólk heldur vegna þess að skráðar upplýsingar um virknina séu svo takmarkaðar. 

Þýsk og frönsk heilbrigðisyfirvöld höfðu áður tilkynnt að fólk eldra en 65 ára yrði ekki bólusett með AstraZeneca bóluefninu í þeim löndum. 

Samningur Íslands við Astra Zeneca var undirritaður 15. október 2020. Evrópska lyfjastofnunin (EMA) hélt matsfund vegna Astra Zeneca 29. janúar 2021, framkvæmdastjórn ESB veitti bóluefninu skilyrt markaðsleyfi í kjölfarið auk þess sem Lyfjastofnun hefur veitt bóluefninu skilyrt markaðsleyfi á Íslandi. Ísland fær um 230.000 skammta sem duga fyrir um 115.000 einstaklinga. 

Fólk með undirliggjandi sjúkdóma og þeir sem eiga á hættu að veikjast alvarlega af Covid-19 verður heldur ekki bólusett með AstraZeneca bóluefninu heldur Pfizer-BioNTech og Moderna bóluefnunum í Danmörku og Noregi.

Í Noregi verða látnar líða 9 vikur á milli bólusetninga með AstraZeneca en 4-12 vikur í Danmörku. Sara Watle, læknir hjá FHI, segir að því lengri tími sem líður á milli skammta þá sé virknin betri. 

Í Noregi er búið að bólusetja 135 þúsund manns með fyrri skammtinum en rúmlega 30 þúsund hafa fengið báða skammta. Í Danmörku hefur 1,68% þjóðarinnar fengið báða skammta og 3,28% hafa fengið fyrri skammtinn. Þar er stefnt að því að ljúka bólusetningu fyrir 4. júlí en Norðmenn í september.

Frétt DR

Frétt NRK

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert