Býst við fleiri smitum utan sóttkvíar

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Vísbendingar eru um að hópur þeirra sem greinist með kórónuveiruna utan sóttkvíar fari stækkandi, en í gær greindust átta með kórónuveiruna innanlands, þar af fimm utan sóttkvíar.

Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna. Rakning og raðgreining vegna smitanna stendur yfir en engar upplýsingar eru um tengsl þessara einstaklinga. Smitin komu öll upp á suðvesturhorninu og á Suðurlandi.

Frá því að hertar aðgerðir tóku gildi hafa 38 greinst innanlands, þar af 10 utan sóttkvíar og eru þau öll af völdum undirtegunda svonefnds bresks afbrigðis kórónuveirunnar og flestir þeir sem greinst hafa í sóttkví tengjast smitum sem upp hafa komið í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. Tengsl þessara smita við landamærasmit eru óljós, segir Þórólfur.

Hvað varðar smit utan sóttkvíar er talið að þau tengist ferðamönnum sem greinst hafi í seinni skimun og farið óvarlega meðan á sóttkví stóð.

Vonast Þórólfur til þess að hægt verði að ná utan um ástandið á næstu tveimur vikum, en núverandi aðgerðir gilda til 15. apríl. Búast megi við því að fleiri smit komi upp meðal þeirra hundruða sem nú eru í sóttkví.

Þá segir hann stöðuna á Landspítalanum í tengslum við kórónuveiruna góða. Þar liggur einn inni með sýkingu en ekki á gjörgæslu. Hins vegar liggi fyrir að alvarleg veikindi komi yfirleitt ekki upp fyrr en 1-2 vikum eftir að sýking greinist og því megi búast við fleiri innlögnum næstu vikur.

Brugðist við veikleikum í landamærakerfinu

Á þeim sex dögum síðan hertar aðgerðir tóku gildi hafa sex greinst með virkt smit á landamærum, þar af fimm í seinni skimun. Þórólfur er ánægður með nýja reglugerð heilbrigðisráðherra sem kveður á um sýnatöku meðal barna og fólks með vottorð, auk þess sem fólki frá áhættusvæðum verður gert að dvelja í sóttkví á sóttvarnahóteli þannig að betur sé hægt að hafa með þeim eftirlit. Þetta hafi verið veikleikar í landamærakerfinu sem nú sé brugðist við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert