Vanfjármögnun ríkisins vandamálið

Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar.
Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar. mbl.is/​Hari

Ekkert í skýrslu verkefnastjórnar um greiningu á rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila bendir til þess að eitthvað sé að í rekstri þeirra. Vandamálið snýr að ábyrgðaraðilanum, sem er ríkið.

Þetta segir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar Alþingis, en nefndin fundaði um skýrsluna í morgun.

Grafalvarleg staða 

Helga Vala segir skýrsluna býsna skýra hvað varðar slæmt ástand við rekstur hjúkrunarheimila. „Það er ekkert í skýrslunni sem bendir til að þetta sé handvömm rekstraraðila,“ segir hún. „Þetta snýr að ábyrgðaraðilum með rekstrinum, sem er ríkið, og ákvörðun um að vanfjármagna þessa lögbundnu þjónustu,“ bætir hún við og segir stöðuna grafalvarlega. „Það er ekki hægt að bíða eftir næstu skýrslu. Það er alls óvíst hvort hjúkrunarheimilin lifi slíkt af.“

Hún nefnir að sveitarfélögin hafi verið að setja meira en tvo milljarða króna í verkefnið á síðustu árum. Það dugi þó ekki til. „Þetta er mjög skammur tími sem skýrslan nær yfir en hún er samt að sýna alvarlegar breytingar í rekstrinum. Sá sem er að borga fyrir þjónustuna er ekki að borga nógu mikið og það er ríkið. Það er vandinn og við því þarf að bregðast,“ greinir hún frá.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís mætir á morgun

Gylfi Magnússon, fyrrverandi ráðherra, og Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna, sem voru báðir í starfshópnum sem skilaði skýrslunni, voru gestir fundarins í morgun. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur verið kölluð fyrir nefndina á morgun og segir Helga Vala mjög fróðlegt að heyra hvað hún hefur til málanna að leggja.

Hún bendir á að rekstur hjúkrunarheimila hafi margsinnis verið ræddur í nefndinni. Sjálfstæðir rekstraraðilar og fulltrúar sveitarfélaga hafi verið gestir hennar á undanförnum mánuðum. Sami tónninn sé alls staðar sleginn.

Helga Vala segir að tryggja þurfi kjör starfsfólks hjúkrunarheimila. Ekki sé hægt að ganga út frá því að það sé tilbúið að lækka í launum eða missa réttindi sín. Það sé á ábyrgð ríkisins að passa að það gerist ekki. Hún nefnir að ríkið hafi tekið þátt í lífskjarasamningunum og að það sé grafalvarlegt ef það firri sig ábyrgð gagnvart þeim.

Ræddu um lífssýni og persónuvernd

Á fundinum var einnig rætt um flutning lífssýna til greininga erlendis í tengslum við málefni Krabbameinsfélagsins. Að sögn Helgu Völu snerist umræðan um persónuverndarmál en beðið er eftir minnisblaði frá Persónuvernd þess efnis. Það er væntanlegt á næstu tveimur vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert