„Þetta gengur ekki svona“

Eybjörg Helga Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.
Eybjörg Helga Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. mbl.is/Hari

Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, Eybjörg Helga Hauksdóttir, vonar að stjórnvöld taki loks á þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin á hjúkrunarheimilum um land allt. Hún segir brýna þörf fyrir fjárveitingu, ellegar stefni 87% hjúkrunarheimila í gjaldþrot.

Skýrsla starfshóps um rekstur hjúkrunarheimila, sem stjórnvöld hafa sagt að sé forsenda aukinnar fjárveitingar til málaflokksins, birtist í dag, en hennar hefur verið beðið í á áttunda mánuð.

Samkvæmt niðurstöðum skýrsluhöfunda kostar rekstur hjúkrunarheimila 31,1 milljarð á ári.

„Auðvitað er maður orðinn frekar óþreyjufullur, svo vægt sé til orða tekið, að það verði eitthvað gert í þessum málum, þetta gengur ekki svona.

Og ég er ekki að ýkja þegar ég segi að ef ekki verður komið til móts við þessa breytingu á vaktavinnutímanum, ofan á þennan taprekstur 87 hjúkrunarheimila, þá er alveg ljóst að flest ef ekki öll þessara hjúkrunarheimila muni lenda í greiðsluþroti á næstu mánuðum,“ segir Eybjörg við mbl.is.

„Þetta er bara staðreynd, þetta eru ekki gífuryrði, þetta eru ekki hótanir. Þetta er bara staðreynd,“ bætir hún við.

10% aukin fjáraukning hið minnsta

Eybjörg útskýrir að mörg hjúkrunarheimila séu rekin með tapi og að meiri fjármuna sé þörf til þess að bregðast við því. Eins og fyrr segir kostar árlega um 31 milljarð að reka hjúkrunarheimili landsins.

Að sögn Eybjargar þarf a.m.k. þrjá milljarða til viðbótar til þess að mæta viðmiði um fjölda ummönnunartíma, sem sett er af landlækni, með því fagfólki sem nú vinnur á hjúkrunarheimilum.

„Samtalið hefur nú ekki beint verið tekið um hversu langt menn vilja ganga, ef einnig á að mæta viðmiðum landlæknis um fagmönnun. Þá erum við að tala um 25% aukningu á launakostnaði, en við vitum alveg að það er ekki að fara að gerast, að minnsta kosti ekki á einu bretti.

En manni finnst algjört lágmark að sýnd sé viðleitni til þess að mæta þessu viðmiði um fjölda umönnunarklukkustunda, bara til þess að ná að sinna þeim sem dvelja á hjúkrunarheimilunum.“

En þá er sagan ekki öll sögð, enda eru síðustu kjarasamningar sem voru undirritaðir afturvirkir til ársins 2019 og því þarf aukin fjárveiting einnig að vera afturvirk.

Stytting vinnutíma vaktavinnufólks leggst ofan á tapresktur

En sagan er enn ekki öll sögð, eins og Eybjörg útskýrir, vegna þess að 1. maí tekur gildi stytting vinnutíma vaktavinnufólks, sem hefur í för með sér kostnaðarsamar skipulagsbreytingar innan hjúkrunarheimilanna. 

„Svo erum við að horfa fram á svakalega breytingu sem á að taka gildi núna 1. maí, bara núna í næstu viku, um vinnutíma vaktavinnufólks og kostnaðarauka upp á 10-15% launahækkun ofan í þessa stöðu. Og við höfum ekki enn fengið svör við því hvernig menn ætla að koma til móts við þetta ástand og hvenær. 

Það er augljóst að okkar mati að það verður að veita inn peningum í þessa þjónustu og það strax. Þetta gengur ekki lengur, þessi skýrsla liggur bara fyrir, menn sjá í þessari svörtu skýrslu að það vantar fjármagn og nú þarf bara að græja það strax.“

mbl.is