Hafnar einkavæðingu hjúkrunarheimila

Einka­fyr­ir­tækið Heilsu­vernd hjúkr­un­ar­heim­ili ehf. tek­ur við rekstri Öldrun­ar­heim­ila Ak­ur­eyr­ar af …
Einka­fyr­ir­tækið Heilsu­vernd hjúkr­un­ar­heim­ili ehf. tek­ur við rekstri Öldrun­ar­heim­ila Ak­ur­eyr­ar af bæj­ar­fé­lag­inu um næstu mánaðamót. mbl.is/Þorgeir Baldursson

BSRB hafnar einkavæðingu Öldrunarheimila Akureyrar og kallar eftir því að samningur við einkaaðila um rekstur hjúkrunarheimila bæjarins verði endurskoðaður. Í ályktun stjórnar bandalagsins er bent á að aukin einkavæðing í heilbrigðiskerfinu gangi þvert á vilja mikils meirihluta þjóðarinnar sem vilji að heilbrigðisþjónustan sé á hendi hins opinbera.

Einka­fyr­ir­tækið Heilsu­vernd hjúkr­un­ar­heim­ili ehf. tek­ur við rekstri Öldrun­ar­heim­ila Ak­ur­eyr­ar af bæj­ar­fé­lag­inu um næstu mánaðamót. Heil­brigðisráðherra hef­ur nú staðfest samn­ing Sjúkra­trygg­inga og fyr­ir­tæk­is­ins um þessa yf­ir­færslu.

Bandalagið varar við því að skorið verði niður í þjónustu við íbúa hjúkrunarheimilanna eða að kjör og starfsskilyrði starfsfólks verði skert. Í ályktun stjórnarinnar er bent á að Akureyrarbær hafi tapað um 400 milljónum króna á ári á rekstri hjúkrunarheimilanna. Útilokað sé að einkaaðili taki við rekstrinum með þeim formerkjum án þess að ætla sér að fara í verulegan niðurskurð.

„Við getum ekki sætt okkur við að heilbrigðisþjónusta fyrir þennan stóra hóp aldraðra verði einkavædd og óttumst að afleiðingarnar verði verri þjónusta fyrir íbúa og skerðing á kjörum og starfsaðstöðu starfsfólksins. Það getum við ekki sætt okkur við,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Ályktun stjórnar BSRB sem samþykkt var á fundi stjórnarinnar 20. apríl er eftirfarandi:

Stjórn BSRB hafnar frekari einkavæðingu á hjúkrunarheimilum og kallar eftir því að samningur við einkaaðila um rekstur Öldrunarheimila Akureyrar verði endurskoðaður. Frekari einkavæðing í heilbrigðiskerfinu gengur þvert á vilja þjóðarinnar enda vill mikill meirihluti hennar að heilbrigðisþjónustan sé á hendi hins opinbera.

Stjórnin bendir jafnframt á að Akureyrarbær tapaði um 400 milljónum króna á ári á rekstri hjúkrunarheimila og útilokað að einkaaðili vilji taka við rekstrinum með þeim formerkjum og án þess breyting verði á þjónustu. Því er ljóst að annaðhvort stendur til að fara í verulegan niðurskurð á þjónustu við íbúa hjúkrunarheimilanna og/eða skerða kjör og starfsskilyrði starfsfólks. Hvorug leiðin kemur til greina að mati stjórnar BSRB.

mbl.is