„Landspítali er ekki hjúkrunarheimili aldraðra“

Rekstur hjúkrunarheimila nemur um 31 milljarði.
Rekstur hjúkrunarheimila nemur um 31 milljarði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umræða þjóðfélagsins undanfarnar vikur hefur snúið mikið að stöðunni á bráðamóttöku Landspítala og álagi á heilbrigðisstéttum, þá sérstaklega á læknum. Rót vandans virðist að miklu leyti liggja í skorti á hjúkrunarrýmum en í gær afhentu um þúsund læknar heilbrigðisráðuneytinu undirskriftalista. 

Í fylgiskjali listans segir:

„Meðan allt of margir læknar, hjúkrunarfræðingar og annað sérhæft heilbrigðisstarfsfólk stærsta bráðasjúkrahúss landsins sinnir þjónustu við aldraða hjúkrunarsjúklinga, sem ætti að sinna annars staðar í kerfinu, er geta þessa sama starfsfólks til þess að sinna þeim verkefnum sem eiga að vera hluti af grunnstarfsemi Landspítala takmörkuð. Landspítali er ekki hjúkrunarheimili aldraðra. Því má ekki gleyma.“

Í byrjun árs 2021 voru 453 manns á biðlista eftir varanlegri dvöl í hjúkrunarrými samkvæmt tölum embættis landlæknis.

Í samtali við mbl.is segir Gísli Páll Pálsson, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SVF) og forstjóri Grundarheimilanna, lausnina vera fremur einfalda.

„Besta lausnin væri ef ríkið myndi fallast á að borga húsaleigu fyrir þau hjúkrunarrými sem eru í notkun. Þá er hægt að fjárfesta og byggja hjúkrunarheimili og leysa vandann, ekki kannski alveg um leið þar sem það tekur tvö eða þrjú ár að byggja. Á meðan ríkið horfist ekki í augu við það að borga húsaleigu þá verður þetta vandamál áfram, ég lofa þér því.“

Gísli Páll Pálsson, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.
Gísli Páll Pálsson, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu.

Gísli segir að það vanti fjármagn til þess að borga þessa húsaleigu og vilja.

„Ég hef verið að ýta þessari lausn að ráðuneytinu síðustu 15 til 20 árin og ég á einhver fimm ár eftir af vinnu, ég vona að ég nái þessu áður en ég hætti.“

Gísli var fulltrúi SVF í starfshópi heilbrigðisráðuneytisins, sem skipaður var í ágúst og var falið að vinna að skýrslu um greiningu rekstarar hjúkrunarheimila. Skýrslan birtist í apríl og samkvæmt niðurstöðum skýrsluhöfunda kostar rekstur hjúkrunarheimila um 31 milljarð.

Að sögn Gísla hefur verið skipaður nýr starfshópur sem hóf störf í vikunni og mun hann halda áfram að greina gögn og fleira. „Þessi vinna snýr hins vegar ekki að fjármögnun hjúkrunarheimilanna heldur að rekstrinum,“ segir Gísli og bætir við að þjónustan hafi fengið 1,3 milljarða aukalega í ár í rekstur sem sé mjög jákvætt.

„Góð byrjun.“

Spurður hvaða áhrif stytting vinnuvikunnar hafi haft segir Gísli að reksturinn hafi fengið ákveðna uppígreiðslu frá ríkinu.

„Við teljum það hins vegar ekki vera alveg nóg. Við þurfum að ræða við ríkið í haust þegar kemur í ljós hversu mikil áhrif styttingin hefur.“

Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara.
Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara.

Vantar millistig

„Við höfum margbent á að þessi staða hjúkrunarheimilanna er til komin vegna þess að menn hafa ekki hugað að fleiri búsetuúrræðum fyrir eldra fólk,“ segir Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara.

„Hugmyndin hefur verið sú að fólk búi heima hjá sér eins lengi og mögulegt er og síðan þegar það gengur ekki lengur þá er fólk sent á hjúkrunarheimili. Það vantar millistigið.“

Helgi segir millistigið eiga að vera staður þar sem eldra fólk gæti búið í 40 til 50 fermetrum og sótt þjónustu án innlagnar.

„Fólk færi þannig ekki inn á stofnun heldur væri þetta íbúðarúrræði. Þetta væri því millistig á milli heimilisins og hjúkrunarheimilisins sem er ekki rándýrar þjónustuíbúðir fyrir aldraða sem að tiltölulega lítill hópur hefur efni á.“

„Pressan á endastöðina er alltof mikil af því að fólk hefur ekki hugað að þessu millistigi,“ segir Helgi og bætir við að fjárframlög og annað slíkt bætist við vandann.

Vandinn hverfur ekki

„Það er svo makalaust að halda að vandinn hverfi bara, eins og það virki að bíða bara og sjá og þá muni eitthvað gerast. Það er ekki svoleiðis,“ segir Helgi og bætir við að ef eitthvað sé þá aukist vandinn einungis ef ástandið haldi áfram óbreytt.

„Ég hef oft sagt að maður er alveg undrandi á því að fólk heldur að við höfum bara dottið ofan af himnum,“ bætir hann við og er þar að meina eldra fólk.

„Menn hafa ekki verið að kynna sér efnið nægilega vel. Síðan er þetta allt komið í óefni og þá fara menn að benda hvor á annan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert