Vont þegar svona staða kemur upp

Björn Snæbjörnsson, til vinstri, skömmu fyrir fundinn.
Björn Snæbjörnsson, til vinstri, skömmu fyrir fundinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formannafundur Starfsgreinasambandsins (SGS) hófst á Icelandair Hótel Reykjavík Natura klukkan ellefu og stendur hann yfir til klukkan 17 í dag.  Spurður fyrir fundinn út í væringarnar innan stéttarfélagsins Eflingar, sem er stærsta félagið innan sambandsins, sagði Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, það vera vont þegar svona staða kemur upp í félögum.

Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri SGS, stendur og ræðir við félagsmenn.
Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri SGS, stendur og ræðir við félagsmenn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er nú ekki algengt. Þetta er svolítið innanhússmál í Eflingu en auðvitað hefur þetta áhrif á hreyfinguna í heild þegar svona gerist. Með Sólveigu [Önnu Jónsdóttur, fyrrverandi formann Eflingar] þá er hún búinn að vera ötull baráttumaður og það er missir af henni,“ sagði Björn við blaðamann fyrir utan fundarsalinn en fundurinn var lokaður fjölmiðlum.

Málefni Eflingar eru ekki formlega á dagskrá fundarins, en varaformaður og varaframkvæmdastjóri félagsins mættu fyrir hönd þess.

Rætt um kaupmátt og hagvaxtarauka

Björn sagði að fundurinn væri útvíkkaður því bæði formenn og varaformenn taki þátt í honum. Farið verður yfir stöðuna varðandi kaupmátt og fleira, auk þess sem horfurnar framundan verða skoðaðar. Sömuleiðis verður fjallað um hagvaxtarauka sem var samið um í síðustu kjarasamningum og kemur til framkvæmda í vor og einnig um hvernig hefur gengið varðandi styttingu vinnuvikunnar hjá opinberum aðilum.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, á fundinum í morgun.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, á fundinum í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ekki síst þá er ár í að almennir kjarasamningar losna. Við ætlum að reyna að fara yfir hvernig félögin geti undirbúið sig undir komandi kjarasamninga og reyna að setja tímaáætlanir um hvenær menn eru tilbúnir með ákveðna hluti og hvenær Starfsgreinasambandið kemur inn í þessu mál,“ bætti hann við.

Áhyggjur af aukinni verðbólgu

Spurður út í stöðuna núna fyrir þessa næstu lotu sem er framundan í kjaraviðræðum sagði hann sumt hafa gengið eftir og nefndi einnig áhyggjur sem menn hafa af aukinni verðbólgu. „Þetta er gert fyrir félögin til að vita hvernig staðan er áður en fólk fer að vinna mikið heima í félögunum í undirbúningnum,“ sagði hann um fundinn í dag.

Starfsgreinasamband Íslands er fjölmennasta landssamband launafólks á Íslandi og stærsta landssambandið innan ASÍ, með samtals um 72.000 félagsmenn. Eitt helsta hlutverk SGS er að sameina verkalýðsfélög í baráttunni fyrir bættum kjörum og standa vörð um áunnin réttindi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert