Hagvaxtarauki ekki í myndinni

SA segja hagvaxtaauka ekki vera í sjónmáli.
SA segja hagvaxtaauka ekki vera í sjónmáli. mbl.is/Unnur Karen

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir með öllu ótímabært að ræða greiðslu hagvaxtarauka til launþega á næsta ári.

Tilefnið er samtal við Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, í Morgunblaðinu sem taldi ljóst að greiddur yrði hagvaxtarauki, samkvæmt lífskjarasamningnum, á næsta ári. Hagkerfið hafi enda tekið hratt við sér í ár eftir snarpa niðursveiflu í fyrra.

Halldór Benjamín segir hagtölur þær sem liggja hagvaxtaraukanum til grundvallar ekki munu birtast fyrr en næsta vor. Þ.e.a.s. tölur um hagvöxtinn á þessu ári.

Mynd/Morgunblaðið

Hagspárnar misjafnar

Seðlabankinn spáir í síðustu Peningamálum 4% hagvexti á næsta ári.

Halldór Benjamín kveðst ekki svara spurningum í viðtengingarhætti þegar hann er spurður hvort hagvöxtur þessa árs muni standa undir hagvaxtaraukanum.

„Hagspárnar eru mjög misjafnar og við höfum séð að fljótt geta skipast veður í lofti. Ég ætla ekki að gefa mér hver þróunin verður á svona mælikvarða fyrr en tölurnar liggja fyrir og tel að þetta séu með öllu ótímabærar vangaveltur.“

Hagvaxtaraukinn skal reiknaður út frá hagvexti á mann og felur í sér varanlega hækkun á launataxta. Til dæmis var áætlað í kynningarefni með samningunum að 2% hagvöxtur á mann á þessu ári gæti skilað launþegum samtals 32 þúsund króna launahækkun á mánuði (sjá graf) eða um 384 þúsund krónum á ári.

Halldór Benjamín Þorbergsson.
Halldór Benjamín Þorbergsson. Ljósmynd/Aðsend

Hið opinbera hafi gengið lengra

Launavísitalan hefur hækkað meira hjá hinu opinbera en hjá einkageiranum frá gerð lífskjarasamninganna í apríl 2019. Spurður hvað skýri þetta, í ljósi þeirrar áherslu atvinnulífsins að laun í einkageiranum skuli leiða launaþróunina, segir Halldór Benjamín skýringuna þá að hið opinbera hafi gengið lengra við gerð kjarasamninga.

„Þau taka í raun grunninn sem lífskjarasamningurinn byggir á og teygja hann síðan í ranga átt. Og þetta hefur reyndar verið sagan við íslenska kjarasamningsgerð allt of lengi, að sá grunnur sem samið er um í stóru kjarasamningunum á almennum vinnumarkaði myndar gólf í kjarasamningum en ætti auðvitað að mynda ófrávíkjanlegt þak. Hver þrýstihópurinn á fætur öðrum vill fá það sem búið er að semja um og síðan aðeins meira. Og tölurnar tala sínu máli í þessum efnum. Það er engin leið að túlka þær með öðrum hætti,“ segir Halldór Benjamín.

Heimild til uppsagnar lífskjarasamninganna rennur út í lok mánaðar en þeir gilda út október 2022. Spurður hvort endurskoðunarákvæði verði virkjuð segir Halldór Benjamín að fram fari heildsstætt mat samningsaðila. Forsendunefnd SA og ASÍ sé með málin til skoðunar og hvor aðili muni taka sína ákvörðun.

Horfa ber til styttri vinnutíma

Anna S. Halldórsdóttir er fagstjóri launa hjá Hagstofu Íslands.

Spurð hvort lesa megi það úr þróun launavísitölunnar frá gerð lífskjarasamninganna að laun hjá hinu opinbera hafi hækkað meira en í einkageiranum segir Anna Sigríður að horfa þurfi á málið í víðara samhengi.

Anna Sigríður Halldórsdóttir.
Anna Sigríður Halldórsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Í lögum um launavísitölu nr. 89/1989 kemur fram að breytingar á vinnutíma og samsetningu hans skuli ekki hafa áhrif á vísitöluna nema um sé að ræða samningsbundnar breytingar sem jafna má til launabreytinga. Í kjarasamningum sem gerðir voru á árunum 2019 og 2020 voru ákvæði um styttingu vinnutíma sem hafa áhrif til hækkunar á launavísitölu þar sem verð vinnustundar hækkar þegar færri vinnustundir eru að baki launum. Útfærslur styttingar eru mismunandi, svo sem dagleg stytting eða styttri vinnudagur einu sinni í viku, en þær hafa sömu áhrif á launavísitölu þar sem heildarstytting er sú sama,“ segir Anna Sigríður og útskýrir málið frekar:

Fá hlutfallslega meiri hækkun

„Laun eru eitt og tímakaup annað. Síðasta samningslota fól að mestu í sér krónutöluhækkanir, bæði á opinbera markaðnum og í einkageiranum. Í þessu samhengi er því vert að hafa í huga að hækkun þeirra sem hafa lægri laun verður hlutfallslega meiri en þeirra sem hærri launin hafa. Starfsfólk sveitarfélaga var árið 2020 með lægri laun að meðaltali en starfsfólk á almennum vinnumarkaði. Krónutöluhækkun þess hóps hefur því hlutfallslega meiri áhrif til hækkunar á launavísitölu sem byggist á reglulegu tímakaupi.

Vinnutími hjá starfsmönnum hjá hinu opinbera hefur að vissu leyti styst meira [en í einkageiranum] og þar af leiðandi hefur það enn meiri áhrif á tímakaupið,“ segir Anna og bendir á að samningar hjá hinu opinbera hafi verið gerðir ári eftir lífskjarasamninginn. Styttingin hafi því komið síðar til framkvæmda hjá hinu opinbera. Loks hafi samningar verið lausir lengur hjá hinu opinbera og tvær kjarasamningsbundnar hækkanir verið framkvæmdar í apríl 2020.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »