Sólveig enn annar varaforseti ASÍ

Sólveig Anna Jónsdóttir, fráfarandi formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, fráfarandi formaður Eflingar. mbl.is/Hari

Miðstjórn ASÍ mun funda á miðvikudag og þar verður staða Sólveigar Önnu Jónsdóttur sem annar varaforseti sambandsins rædd. Sólveig sagði af sér sem formaður Eflingar í gær en Drífa Snædal, forseti ASÍ, segist ekki hafa fengið formlegt erindi frá Sólveigu um afsögn sem annar varaforseti sambandsins.

ASÍ er kunnugt um aðdraganda afsagnar Sólveigar en Drífa segist bundin trúnaði um málið: „Það hefur svo sem komið fram í fjölmiðlum að það hefur verið leitað til okkar áður. ASÍ tekur ekki fram fyrir hendurnar á aðildarfélögum sínum nema í fulla hnefana.“

ASÍ fundaði ekki sérstaklega um stöðu Eflingar og Sólveigar í gær. „Það hefur náttúrulega verið einhver spurning hvort við eigum að stíga inn í þetta ástand núna en aðildarfélögin eru sjálfráð með sín mál. Það er bara þannig,“ segir Drífa.

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, segir mikinn missi að Sólveigu en sambandið heldur útvíkkaðan formannafund í dag þar sem næstu kjarasamningar verða undibúnir. „Þetta verða formenn og varaformenn,“ segir Björn og gerir ráð fyrir að varaformaðurinn mæti á fundinn.

Hann gerir ekki ráð fyrir því að mál Sólveigar verði sérstaklega tekið fyrir á fundinum: „Ekki formlega alla vega. Dagskráin er löngu tilbúin. Það sem menn ræða þess á milli veit ég ekki um.“

Sólveig Anna sagði frá því í færslu í gærkvöldi að hún hefði sætt hótunum um ofbeldi frá starfsmanni Eflingar og tilkynnt það til lögreglu. Hún segir þetta aðeins eitt af mörgum dæmum um ofstæki og heift í hennar garð innan félagsins.

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert