Þjóðræknin aftrar þjóðernisöfgum á Íslandi

Þjóðernishyggju má finna í helstu stjórnmálaflokkum hér á landi, en hún er svo almenn og mild, að hin ógeðfelldari gerð popúlískrar þjóðernishyggju hefur aldrei átt upp á hið pólitíska pallborð á Íslandi.

Dr. Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor við Háskólann á Bifröst hefur sent frá sér bókina Þjóðarávarpið, sem fjallar um þróun popúlískrar þjóðernishyggju undanfarna hálfa öld. Hann ræðir umfjöllunarefni hennar í stóru samhengi í viðtali við Dagmál Morgunblaðsins, streymi sem er opið öllum áskrifendum blaðsins.

Þegar litið er til núverandi stjórnarflokka minnir dr. Eiríkur á að sterkur þjóðlegur þráður hafi verið í Alþýðubandalaginu á sínum tíma, sem fallið hafi vinstri grænum í arf að einhverju leyti, og Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafi báðir þjóðleg gildi að leiðarljósi.

Þessar almennu þjóðræknisáherslur, sem finna megi í einhverjum mæli hjá flestum stjórnmálaflokkum hér, hafi á sinn hátt haldið aftur af popúlískum þjóðernisöfgum á Íslandi. Þær þurfa að mati Eiríks þrjár forsendur: áskorun af jaðri stjórnmálanna, hrífandi leiðtoga og áberandi, framandi minnihlutahópa. Ekkert af þessu hafi átt við á Íslandi. Það útiloki hins vegar ekki að aðrar gerðir popúlískrar þjóðernishyggju geti skotið hér upp kollinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert