Fordæmalausar skemmdir í Eyjum

Teigurinn við Kaplagjótu er nánast í rúst eftir óveðrið að …
Teigurinn við Kaplagjótu er nánast í rúst eftir óveðrið að undanförnu þar sem hafið bar á land stórgrýti, möl og sand. Golfvöllurinn í bakgrunni. Morgunblaðið/Óskar Pétur Friðriksson

Skemmdir á golfvellinum í Vestmannaeyjum eftir ofviðrið og hafrótið þann 8. febrúar eru að koma í ljós eftir að snjó fór að taka upp, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Allar brautirnar meðfram Hamrinum hafa orðið fyrir skemmdum, á sextándu braut er mikið grjót, teigur á sautjándu braut er nánast horfinn og göngustígar þar í kring.

Stórgrýti og sandur hafa skolast upp á völlinn og merkjanlegar breytingar hafa orðið á Hamrinum og fjörunni fyrir framan. Tjónið er mikið fyrir Golfklúbbinn og verður róið að því öllum árum að koma vellinum í lag fyrir sumarið.

Atli Aðalsteinsson bókari tekur hér upphafshögg af 17. teig í …
Atli Aðalsteinsson bókari tekur hér upphafshögg af 17. teig í mars 2012, í brælu sem þá var. Kaplagjóta er að baki teignum og stutt í öldurótið.

Aðfaranótt þessa dags var ofsaveður af suðvestri við Suður- og Suðvesturland. Mældist 20 metra alda við Garðskaga, ölduhæð við Landeyjahöfn var hátt í tíu metrar og tæplega fimmtán metrar við Surtsey. Fiskur skolaðist á land í Klaufinni, sunnarlega á Heimaey sem ekki hefur gerst í þessum mæli síðan í fárviðri sunnudaginn þriðja febrúar 1991. Það voru því miklir kraftar á ferðinni þennan dag og stóðu upp á golfvöllinn í Vestmannaeyjum sem er einn hinn fallegasti á landinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert