Áhugalaus ráðherra hleypi öðrum að

Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nú þarf fjármálaráðherra að sýna pólitíska forystu í þessu máli. Þjóðin er búin að missa trú á söluferlinu á Íslandsbanka. Það þarf að fara almennilega ofan í þetta ferli. Hvers vegna í ósköpunum aðilar fengu frítt spil til að selja almenningseign á afslætti til spákaupmanna?“ spurði Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, þar sem hún spurði Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra um sölu á hlut rík­is­ins í Íslands­banka.

Kristrún sagði að söluaðilar fengju himinháar þóknanir fyrir að hjálpa erlendum spákaupmönnum að skotgræða á ríkiseign. 

„Það er eins og hæstvirtur fjármálaráðherra sé á sjálfstýringu,“ sagði Kristrún og hélt áfram:

„Útboð á ríkiseign er stjórnlaust. Ef hæstvirtur ráðherra er svona áhugalaus um þetta alls saman, um sitt hlutverk og ábyrgð og getur ekki tekið pólitíska forystu í þessu máli þá ætti hann að huga að því hleypa einhverjum öðrum að. Það er ekki hægt að sinna hér einu æðsta embætti þjóðarinnar með hálfri hendi. Hér er algjör skortur á auðmýkt gagnvart almenningi. Valdhroki hefur umlukið þetta ferli.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hún sagði fjármálaráðherra verða að draga þá til ábyrgðar sem stóðu á bak við spillingu í söluferlinu og þjóðin þurfi að vita hvað fór fram í samskiptum milli ráðherra, Bankasýslu og söluráðgjafa.

Segir heildarniðurstöðuna stórkostlega

Bjarni ítrekaði, eins og kom fram í fyrri fyrirspurn á þingfundi, að hann muni hafa frumkvæði að því að óska eftir því að Ríkisendurskoðun fari yfir framkvæmd útboðsins.

„Ég hef fulla trú á því að það muni standast ágætlega skoðun. Svo skulum við ekki gleyma heildarniðurstöðunni, sem er í raun og veru stórkostleg í ljósi þess að við höfum náð að selja yfir 100 milljarða í bankanum, fengið breytt eignarhald, marga langtímafjárfesta o.s.frv. að kerfislega mikilvægum banka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert