Álagið hafði ekki fælingarmátt

Guðrún Aspelund, yfirlæknir á sviði sóttvarna hjá embætti landlæknis.
Guðrún Aspelund, yfirlæknir á sviði sóttvarna hjá embætti landlæknis. Samsett mynd

Guðrún Aspelund, verðandi sóttvarnalæknir, segir að það álag sem hafi verið á teymi embættis landlæknis í faraldrinum, og sóttvarnalækni sérstaklega, hafi ekki fælt hana frá því að sækja um starfið en Guðrún starfar sem yfirlæknir á sviði sóttvarna hjá embættinu.

Hún segir útlit fyrir að Covid-19 verði á hennar borði þegar hún tekur við starfinu í septembermánuði og að embætti landlæknis líti aukna útbreiðslu kórónuveirunnar nú alvarlegum augum. 

„Við lítum það alvarlegum augum þegar útbreiðslan er að aukast og þurfum að fylgjast vel með því. Það er kannski meira áhyggjuefni ef veikindin eru að verða meiri og það mikil fólk er að leggjast inn á sjúkrahús. Við sjáum að það er aukning á innlögnum, bæði á Landspítala og sjúkrahúsum á landsbyggðinni þannig að það er eitthvað sem við þurfum að vera vel vakandi yfir,“ segir Guðrún. 

Hafði góða sýn á starfið

Af þessum sökum er embætti landlæknis nú í átaki, í samstarfi við heilsugæsluna, til þess að hvetja fólk til þess að fara í bólusetningu gegn Covid-19, sérstaklega aldraða og fólk með undirliggjandi sjúkdóma sem á eftir að fá örvunarskammt. 

„Það ver gegn þessum alvarlegu veikindum, það er búið að sýna vel fram á það,“ segir Guðrún.

Aðspurð segir hún að síðustu tvö ár, sem einkennst hafa af viðbrögðum við heimsfaraldri kórónuveiru hafi verið krefjandi, sérstaklega fyrir sóttvarnalækni sjálfan. 

„Mér fannst eftir þennan tíma að ég hefði góða hugmynd og sýn á þetta starf, þekkingu á því hvað myndi vera framundan og að ég væri reiðubúin í að takast á við það,“ segir Guðrún. 

Alltaf eitthvað nýtt

Spurð hvort hún búist við því að Covid-19 verði enn á borði sóttvarnalæknis þegar hún tekur við í september jánkar hún því. 

„Við erum náttúrulega búin að læra mjög mikið og þurfum að fara vel yfir það hvað var vel gert, hvað við getum gert betur og hvernig við bregðumst við nýjum aðstæðum. Sjúkdómurinn hefur svolítið breyst og það er önnur staða með bólusetningum og fleiru. Svo eru auðvitað önnur verkefni hjá okkur sem við þurfum að halda áfram með af krafti og svo er alltaf eitthvað nýtt sem kemur upp,“ segir Guðrún. 

Vinna í rakningu vegna berklasmits

Spurð hvort hún ætli sér að ráðast í einhverjar breytingar þegar hún tekur við segir hún:

„Ég kem ekki inn til þess að ganga í breytingar bara breytinganna vegna heldur mun ganga til verka á minn hátt og hef frábært fólk sem ég vinn með. Við munum fara yfir það saman hver verkefnin eru og hvernig við tökum á þeim.“

Ætlað berklasmit greindist hér á landi í síðustu viku en um fjölónæma berkla virðist vera að ræða. Þórólfur Guðnason, núverandi sóttvarnalæknir, hefur sagt að það sé alvarlegt ef slíkt breiðist út. Það sé þó ekki útlit fyrir að útbreiðsla hafi orðið en hinn smitaði er í einangrun. Spurð um smitrakningu vegna berklasmitsins segir Guðrún að frekar sé leitast við að hafa hana víðari en þrengri. 

„Það er bara í góðum farvegi, það er samvinna milli okkar, Landspítala og heilsugæslunnar. Það er verið að vinna í þeirri rakningu, hvað þetta eru margir. Það er ákveðinn hópur sem er nær tilfellinu og aðrir sem eru fjær því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert