Ekki útlit fyrir að berklarnir hafi breiðst út

Þórólfur segir ekki útlit fyrir útbreiðslu fjölónæmra berkla. Smitrakning fer …
Þórólfur segir ekki útlit fyrir útbreiðslu fjölónæmra berkla. Smitrakning fer bráðlega í gang. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikil ógn getur stafað af því að fjölónæmir berklar breiðist út, að sögn sóttvarnalæknis. Hann segir þó ekki útlit fyrir að útbreiðsla hafi orðið af berklum hér á landi þrátt fyrir að eitt smit hafi greinst. 

„Í hvert skipti sem greinist berklatilfelli er mikil vinna í kringum það með smitrakningu og berklaprófi á fólki,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.

Ekkert grín

Eins og mbl.is greindi frá fyrir helgi er líklegt að fjölónæmir berklar hafi greinst hjá einum einstaklingi hér á landi. Bendir allt til þess en það hefur þó ekki fengist fyllilega staðfest enn enda tekur margar vikur að greina fjölónæma berkla, að sögn Þórólfs.

Smitrakning vegna smitsins fer í gang fljótlega en sá sem greindist er í einangrun, þó ekki á spítala.

„Ef það verður einhver meiri útbreiðsla getur verið mikil ógn af því að fá fjölónæma berkla víða. Það er ekkert grín ef svo verður en það er svo sem ekki útlit fyrir það eins og staðan er núna,“ segir Þórólfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert