Þurfum dúndurleik á miðvikudaginn

Sverrir talar við sínar konur.
Sverrir talar við sínar konur. mbl.is/Eyþór Árnason

Keflavík er einum sigri frá því að tryggja sér Íslandsmeistaratitil kvenna í körfubolta eftir sigur á Njarðvík í Ljónagryfjunni í kvöld. Liðin mætast aftur á miðvikudaginn í Íþróttahúsinu í Keflavík þar sem Keflavíkurkonur geta tryggt sér titilinn.

Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Keflavíkur var að vonum ánægður með sigurinn og baráttuna í sínum konum þegar mbl.is ræddi við hann strax eftir leik:

Hvað skóp sigurinn hjá þínu liði í kvöld?

„Góð vörn, frábær barátta og heilt yfir spiluðum við bara mjög vel í kvöld."

Myndir þú segja að sjálfstraustið í þínu liði sé í hámarki í ljósi þess að það voru allir að hitta nokkuð vel í kvöld?

„Já liðsframmistaðan var mjög góð í kvöld. Anna Lára, Eygló, Emilía og fleiri voru með virkilega góða frammistöðu. Leikmenn að skora í kvöld sem voru frábærir í að gera hindranir í síðasta leik og ég er bara mjög ánægður."

Nú eruð þið 2:0 yfir í einvíginu. Fyrirfram voru áhyggjur þar sem Birna meiddist fyrir þetta einvígi. Þrátt fyrir hennar miklu hæfileika þá er ekki að sjá að Keflavíkurliðið sé að sakna hennar. Er breiddin svona mikil í liðinu?

„Við söknum Birnu. Hún er sennilega búin að vera besti íslenski leikmaðurinn í deildinni í vetur. Það eru aðrar sem koma þá bara inn og hingað til hefur það verið nýtt vel af þeim leikmönnum. En já við erum með breidd. Þegar þú ert með breidd þá eru alltaf leikmenn sem eru að spila minna en þær ættu að vera gera. Núna eru þær að nota tímann vel og sanna sig."

Hvað þarf til að landa Íslandsmeistaratitlinum á miðvikudag?

„Við þurfum dúndurleik á miðvikudag. Við þurfum betri frammistöðu en hér í kvöld. Við þurfum meiri baráttu, fleiri fráköst og fleiri stig. Næsti leikur verður alvöru barátta. Núna þurfa leikmenn bara að hugsa vel um sig og gera sig klára fyrir næsta leik," sagði Sverrir í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert