Hannesarholt opnar á ný

Ragnheiður Jóna Jónsdóttir forstöðumaður Hannesarholts, Friðrik V. Hraunfjörð veitingamaður og …
Ragnheiður Jóna Jónsdóttir forstöðumaður Hannesarholts, Friðrik V. Hraunfjörð veitingamaður og Arnheiður Vala Magnúsdóttir rekstrarstjóri. Ljósmynd/Aðsend

Menningarsetrið Hannesarholt á Grundarstíg 10 í Reykjavík mun opna aftur í dag eftir að því var lokað fyrir rúmu ári síðan. Matreiðslumaðurinn Friðrik V. Hraunfjörð hefur tekið við veitingarekstri í Hannesarholti og opnar veitingastað í húsinu.

Boðið verður upp á fiskrétt og grænkerarétt dagsins í hádeginu og á kvöldin verður í boði almenn veisluþjónusta og matartengdir menningarviðburðir.

Sjálfseignastofnunin hóf starfsemi árið 2012 og hefur reksturinn verið fjármagnaður af stofnendum Hannesarholts, Ragnheiði Jónu Jónsdóttur og Arnóri Víkingssyni, með stuðningi hollvina og hollustu einstaklinga, fyrirtækja, lista- og fræðimanna, að því er fram kemur í tilkynningu.

Ekkert varð úr viðræðum við stjórnvöld

Hannesarholti var lokað í júní á síðasta ári.

Tryggja átti reksturinn til framtíðar með samstarfssamningi við stjórnvöld en eftir tveggja ára viðræður liggur fyrir að ekkert verði úr honum. 

Stuðningur Anna-Maria & Stephen Kellen góðgerðarsjóðsins frá New York  mun þó aftur á móti gera Hannesarholti kleift að halda rekstri hússins áfram.

„Við erum sjóðnum og stjórnarformanni hans, Caroline Kellen, ævarandi þakklát, en Caroline er góðvinur Hannesarholts og sýnir nú í verki áhuga og skilning á hugsjónastarfi Hannesarholts,“ er haft eftir Ragnheiði.  

Í tilkynningu kemur fram að áfram verði leitað eftir fjárhagslegum stuðningi  innanlands „til að menningarstarfsemi nái aftur að blómstra í Hannesarholti með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert