Varðhald beggja mannanna stytt um viku

Málið er bæði rannsakað sem undirbúningur að hryðjuverki og vopnalagabrot. …
Málið er bæði rannsakað sem undirbúningur að hryðjuverki og vopnalagabrot. Tveir eru í varðhaldi, en Landsréttur stytti varðhaldsúrskurði þeirra beggja um eina viku í dag. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur hefur fallist á kröfu seinni mannsins sem situr í gæsluvarðhaldi og einangrun vegna meints undirbúnings á hryðjuverki og stytt varðhaldið niður í eina viku í stað tveggja. Þetta staðfestir Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, við mbl.is. Áður hafði verið greint frá því að Landsréttur hefði stytt varðhald yfir fyrri manninum um sömu tímalengd.

Spurður um áhrif þessa fyrir rannsóknina segir Karl Ingi að rannsókn málsins muni halda áfram og enn sé talsvert í að 14. október renni upp, en þá á varðhaldið að renna út samkvæmt úrskurði Landsréttar. Karl Ingi segist hins vegar ekki geta svarað því að svo stöddu hvort farið verði fram á lengra varðhald, það muni allt koma í ljós.

Í dag var greint frá því að bæði Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir, formaður Efl­ing­ar, og Gunn­ar Smári Eg­ils­son, formaður fram­kvæmda­stjórn­ar Sósí­al­ista­flokks­ins, hefðu farið í vitnaleiðslu vegna málsins, en það tengdist samskiptum á milli tveggja manna sem tengjast málinu þar sem meðal annars var rætt um að drepa Sólveigu og Gunnar Smára.

Karl Ingi segist ekkert geta tjáð sig um þetta atriði eða önnur sem tengjast innihaldi rannsóknarinnar. Hann segir hins vegar að talsverður fjöldi hafi stöðu vitnis í málinu og hafi gefið skýrslu.

Lögregla hefur lítið viljað tjá sig um rannsóknina hingað til fyrir utan tvo upplýsingafundi, en tvær og hálf vika eru síðan lögreglan hélt fyrsta blaðamannafundinn og upplýsti um málið fyrst. Viku síðar fór fram annar slíkur fundur en í síðustu viku þótti ekki ástæða til að halda upplýsingafund. Spurður hvort standi til að halda þriðja fundinn í þessari viku segir Karl Ingi að ekkert liggi fyrir um það og slíkt verði bara gert ef tilefni sé til fundarhalda. Svo sé ekki á þessum tímapunkti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert