Bæjarstjórinn lækkar laun sín

Náttúrufegurðin heillar marga úti við Gróttu á Seltjarnarnesi.
Náttúrufegurðin heillar marga úti við Gróttu á Seltjarnarnesi. mbl.is/Hari

Bæjarstjórn Seltjarnarness boðar hagræðingaraðgerðir á öllum sviðum á næsta ári en þó á að standa vörð um grunnþjónustu. Bæjarstjórinn bauðst til að lækka laun sín um 200.000 krónur á mánuði á næsta ári og bæjarfulltrúar taka líka á sig launalækkun.

Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2023 var samþykkt í bæjarstjórn við síðari umræðu á miðvikudag. Við sama tækifæri var einnig samþykkt þriggja ára áætlun 2024-2026. Í tilkynningu frá Seltjarnarnesbæ kemur fram að fjárhagsáætlun næsta árs mótist einna helst af afar krefjandi og erfiðu efnahagsumhverfi sem ljóst sé að mun lita rekstur bæjarfélagsins á komandi ári. Auk þess sé töluverð óvissa vegna þróunar kjara- og efnahagsmála í landinu. 

Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðu Seltjarnarnesbæjar verði neikvæð um 49.880.251 kr. Niðurstaða A – hluta verði neikvæð um 168.068.000 kr. Niðurstaða B – hluta verði jákvæð um 118.183.000 kr. Veltufé frá rekstri er áætlað 475.864.000  kr. á samstæðuna, að því er segir í tilkynningunni.

Bæjarstjórnin boðar hagræðingaraðgerðir á öllum sviðum en þær verði þó framkvæmdar með þeim hætti að staðinn verði vörður um grunnþjónustu. Útsvar verður 14,09%. Almennar hækkanir gjaldskráa verða 9,75% utan gjaldskrár leikskóla en þar nemur hækkun 7,7% sem er undir verðbólgu. „Fasteignagjöld munu fylgja verðlagsþróun ársins 2023 en því ekki hækka til jafns við stórfellda hækkun fasteignamats,“ segir í tilkynningunni. Jafnframt segir að tengd gjöld muni lækka utan sorphirðugjalds sem hækki vegna „stóraukins kostnaðar við sorphirðu og förgun“.

Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri á Seltjarnarnesi hyggst lækka eigin laun á …
Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri á Seltjarnarnesi hyggst lækka eigin laun á næsta ári. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Fjárhagsáætlun ársins 2023 endurspeglar varfærni, ábyrgð og aðhald. Rétt forgangsröðun verkefna, hófstilltar álögur á bæjarbúa ásamt góðri þjónustu við íbúa er okkar helsta leiðarljós við gerð áætlunar ársins 2023. Þetta er fyrsta fjárhagsáætlun þessarar bæjarstjórnar sem tók við nú í sumar. Hún er gerð við afar krefjandi aðstæður þar sem mikil óvissa hefur ríkt um kjarasamninga sem og almennt efnahagsástand hérlendis sem erlendis. Aldrei verður hvikað frá því að verja grunnþjónustu bæjarfélagsins skóla-, íþrótta- og velferðarmál en það er og verður alltaf forgangsmál,“ segir Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri í tilkynningunni. 

Þakkar fyrir góða samvinnu í áætlanagerð

Athygli vekur að bæjarstjórinn óskaði sjálfur eftir því að föst laun hans sem bæjarstjóri verði lækkuð um 200.000 krónur á mánuði á árinu 2023. Bæjarfulltrúar ætla enn fremur að taka á sig 5% launalækkun fyrir setu í bæjarstjórn á árinu 2023.

„Aðhaldskrafa var gerð á öll svið bæjarins í áætlunargerðinni sem nam 2-4%. Það er að mínu mati rík ástæða til að þakka öllum sem komu að þessari vinnu fyrir þeirra framlag og útsjónarsemi, ekki síst sviðsstjórum og stjórnendum stofnana en einnig bæjarfulltrúum í minni- og meirihlutanum fyrir góða samvinnu,“ segir Þór ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert