Jóla­gjafir vinnu­staða: frídagar, 66° Norður og YAY gjafabréf

Ljósmynd/Pexels

Vinnuveitendur vilja margir hverjir gleðja starfsfólk sitt fyrir jólin og gefa flest fyrirtæki starfsfólki sínu jólagjöf. Í ár fá almennir launþegar einungis einn lögbundinn frídag alla jólahátíðina og brugðu sum fyrirtæki á það ráð að gefa starfsfólki meðal annars frídaga yfir jólahátíðina.

Mbl.is hefur tekið saman jólagjafir vinnustaða til starfsmanna sinna í ár.

Frídagar slá í gegn

Starfsmenn Hagstofunnar fengu aukafrí á milli jóla og nýárs vegna góðrar frammistöðu eða fjóra virka daga auk þess að fá bankagjafabréf upp á 30 þúsund krónur.

Starfsfólk BYKO fékk 50 þúsund króna inneign hjá S4S, brúsa og auka frídag. Þá gat starfsfólk Húsasmiðjunnar valið á milli þess að fá aðalréttapakka eða forréttapakka frá Kjötkompaní ásamt 20 þúsund króna gjafabréfi frá ZO-ON, ryksuguróbot frá Húsasmiðjunni, Nespresso kaffivél eða bankagjafakort að upphæð 30 þúsund krónur. Auk þess fær allt fastráðið starfsfólk einn auka frídag yfir hátíðarnar. Íhlaupafólk fær þá konfekt og 10 þúsund króna gjafabréf hjá ZO-ON.

Starfsfólk Kjörís fær þrjá auka frídaga yfir hátíðarnar auk veglegs matarkassa. Þá býður Össur starfsmönnum og mökum á jólahlaðborð á Hnoss veitingastað, einn frídag um jólin og 40 þúsund króna inneign í Kringluna.

Starfsfólk EY fékk tvo frídaga að eigin vali yfir jólahátíðina, 30 þúsund króna gjafabréf í Kringluna, hönnunarkerti og handgert súkkulaði frá Önnu Mörtu. Þá fengu starfsmenn Landsnets einn frídag og 20 þúsund króna gjafabréf í Kringluna. Ölgerðin gaf starfsfólki sínu rauðvín og hvítvín, frí 2. janúar auk þess gat starfsfólk valið á milli 25 þúsund króna gjafabréfs frá Icelandair, Gleðipinnum, S4S eða gefa í hjálparstarf. Starfsfólk Samkaupa fékk inneign í verslunum Samkaupa að fjárhæð 30 þúsund krónum.

Þá gaf Íslensk erfðagreining sínu starfsfólki bók, bankakort með inneign upp á 90 þúsund krónur og frí á milli jóla og nýárs.

Starfsmenn Hagstofunnar fengu aukafrí á milli jóla og nýárs vegna …
Starfsmenn Hagstofunnar fengu aukafrí á milli jóla og nýárs vegna góðrar frammistöðu. Ljósmynd/Aðsend

Rúmlega 150 þúsund króna gjöf Eimskipa

Starfsfólk Eimskipa fékk 40 þúsund króna gjafakort frá Landsbankanum, tvö viskastykki frá HAF store og 122 þúsund í jólabónus.

Verkfræðistofurnar Mannvit, Ferill og Verkís gefa sínu fólki 100 þúsund króna gjafakort.

Starfsfólk Íslandsbanka fékk að velja tvo frídaga yfir jól og áramót, 60 þúsund króna gjafabréf í Kringluna og leirgerða rjúpu frá Sólheimum.

Starfsmenn Arion banka og Varðar fengu 50 þúsund króna gjafabréf í Kringluna og tösku frá Dimm, á meðan starfsfólk Landsbankans gat valið á milli þess að fá 75 þúsund króna gjafabréf hjá 66° Norður, gjafakort frá Borgarleikhúsinu að andvirði 52 þúsund krónum, gjafabréf frá Icelandair að andvirði 52 þúsund krónum eða gjafakort frá Kjötkompaníinu að andvirði 56 þúsund krónum. 

Starfsfólk Icelandair fékk 25 þúsund króna gjafabréf í Kringluna og sápu frá Urð. Þá gat starfsfólk Isavia og dótturfélaga valið á milli þriggja kosta, þess að fá annað hvort gjafabréf frá Íslandsbanka eða Betri bæ að andvirði 20 þúsund krónum eða gjafabréf frá Icewear að andvirði 30 þúsund krónum.

Starfsfólk Árvakurs fékk 40 þúsund króna gjafabréf frá Cintamani og konfektkassa. Gleðipinnar gáfu starfsfólki vatnshelda snyrtitösku frá 66° Norður og Quality Street konfektkassa. Þá fékk starfsfólk Rúmfatalagersins bakpoka frá 66° Norður ásamt 25 þúsund króna gjafakorti í 66° Norður.

Eimskip gaf starfsfólki veglega jólagjöf.
Eimskip gaf starfsfólki veglega jólagjöf. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rafræn gjafabréf vinsæl

Ríkisútvarpið gaf starfsfólki sínu óskaskrín, vatnsbrúsa og handklæði frá merkinu Dimm. Þá fengu starfsmenn Skylagoon teppi, gjafabréf í ís og bíó auk lyklakippu merktri Skylagoon.

Starfsmenn Alþingis fá 25 þúsund króna gjafabréf í Kringluna en gjöfin tekur einungis til starfsmanna Alþingis en ekki alþingismanna.

Starfsmenn Grundarheimilanna fengu 22 þúsund króna gjafabréf í 66° Norður og starfsmenn á velferðarsviði Reykjavíkurborgar 10 þúsund króna gjafakort frá Landsbankanum.

Starfsmenn Mosfellsbæjar fá gjafabréf út að borða að andvirði 15 þúsund krónum og starfsfólk Grindavíkurbæjar 15 þúsund króna gjafabréf sem hægt er að nota hjá fyrirtækjum í bænum. Reykjanesbær gefur árskort í sundmiðstöðina að andvirði 31 þúsund krónum og 12 þúsund króna gjafabréf frá Betri bæ sem eru samtök verslunar og þjónustu í bænum.

Starfsfólk Akureyrarbæjar fékk 12 þúsund króna gjafabréf með norðlenska flugfélaginu Niceair. Hafnafjarðarbær gefur rafrænt gjafabréf frá YAY að upphæð 11 þúsund krónum líkt og Kópavogsbær, en þar getur starfsfólk valið á milli þess að fá 7 þúsund króna gjafabréf í Kjötkompaní, styrkja Geðhjálp um 25 þúsund, 9 þúsund króna gjafabréf í Lin Desgin, 10 þúsund króna gjafabréf í Cintamani eða 8 þúsund króna gjafabréf í Bestseller eða á Brasserie Kársnes.

Seðlabanki Íslands fór jafnframt þá leið að gefa rafrænt gjafabréf frá YAY fyrir 25 þúsund krónur til starfsmanna. Þá fengu starfsmenn auk þess súkkulaði frá Umhyggju, styrktarfélag langveikra barna og fjölskyldna þeirra.

Starfsfólk Akureyrarbæjar fékk gjafabréf upp á 12 þúsund krónur með …
Starfsfólk Akureyrarbæjar fékk gjafabréf upp á 12 þúsund krónur með norðlenska flugfélaginu Niceair. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Veglegar matarkörfur og gjafabréf

Starfsfólk Samherja fékk veglega matarkörfu með fiski, kjöti, ostum og öðrum vel völdum matvælum. Þá leynist ýmislegt annað góðgæti í jólapakka starfsfólks sem ekki er gefið upp.

Starfsmenn Vís fengu einnig veglega matarkörfu sem innihélt m.a nautalund, osta og gæsabringu. Til viðbótar fengu þeir einnig Aarke sodastreamtæki.

Starfsmenn Póstsins fengu matarpakka sem innihélt hamborgarahrygg, osta, chilisultu, reyktan lax, grafið ærkjöt og fleira góðgæti líkt og starfsfólk Strætó sem fékk auk þess Ittala skál.

SS, Reykjagarður og Hollt&gott gefa starfsfólki sínu 10 þúsund króna gjafakort í Arion banka auk afar veglegrar matargjafar. Starfsfólk álversins í Straumsvík fékk matargjöf og konfektkassa.

Starfsfólk Hörpu fær miðborgarkort með 20 þúsund króna inneign. Þá gefur Mjólkursamsalan starfsfólki jólagjöf að andvirði 25 þúsund sem inniheldur veglegt ostabox, matvörur og gjafakort.

Stálorka í Hafnarfirði lét starfsmenn hafa 15 þúsund króna inneignarkort ásamt rauðvínsflösku. Tékkland bifreiðaskoðun gaf sínu fólki inneignarkort í Bónus upp á 25 þúsund krónur.

Listinn er alls ekki tæmandi yfir þær jólagjafir sem íslenskir vinnustaðir gáfu starfsfólki sínu. Ef þú hefur upplýsingar um jólagjafir fleiri vinnustaða máttu senda línu á netfrett@mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert