Ekki skýr mynd af biðlistum fyrr en í september

Töluverð hreyfing kemst á ráðningar í lok sumars, segir í …
Töluverð hreyfing kemst á ráðningar í lok sumars, segir í svari borgarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki verður hægt að gefa skýra mynd af stöðunni á biðlistum eftir leikskólaplássum á leikskólum Reykjavíkurborgar fyrr en í byrjun september, að því er fram kemur í svari frá borginni við fyrirspurn mbl.is.

Miklar breytingar eigi sér stað frá degi til dags í ágúst og reynsla síðustu ára sýni að hreyfing komist á ráðningar starfsfólks í leikskólana í lok sumars, sem hafi mikil áhrif á innritun.

Jafnframt er bent á að dæmi séu um að börn séu á biðlista fyrir sjálfstætt starfandi leikskóla og borgarrekna á sama tíma, sem skekki stöðuna á biðlistunum.

„Þá verða talsverðar breytingar yfir sumarið á úthlutun leikskólaplássa fyrir haustið og breytist staðan á milli daga. Þar má nefna börn sem fara í sjálfstætt starfandi leikskóla, í fimm ára deildir sjálfstætt starfandi grunnskóla og börn sem flytja til og frá Reykjavík. Pláss sem losna eru boðin börnum sem eru á biðlistum eftir kennitöluröð og er verið að hafa samband við foreldra þessa dagana,“ segir meðal annars í svari í borgarinnar.

Nýjasti leikskólinn opnar á næstu vikum

Fyrsta innritunarlota fyrir leikskóla Reykjavíkurborgar fór fram í mars á þessu ári og voru yngstu börnin sem þá var boðið pláss fædd í febrúar 2022 og verða 18 mánaða í september, en það miðaðist við að pláss væri í þeim leikskólum sem sótt var um. Staðan á biðlistum er mjög mismunandi eftir hverfum og í sumum leikskólum hafa yngstu börnin sem tekin hafa verið inn, verið töluvert eldri en 18 mánaða.

Á síðasta ári urðu til 588 ný leik­skóla­pláss í borg­inni en aðeins hluti af þeim pláss­um nýt­ist sem ný pláss, þar sem hluti er notaður fyr­ir börn sem færa hef­ur þurft til vegna fram­kvæmda og endurbóta á leikskólum, meðal annars vegna myglu.

Alls eru 68 borgarreknir leikskólar í Reykjavík, en til stendur að opna þann nýjasta, sem stendur við Hallgerðargötu, á næstu vikum.

Foreldrar geta fylgst með stöðu umsókna í borgarreknum leikskóla í Völu, innritunarkerfi Reykjavíkurborgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert