Hnykkja þarf á forgangsákvæðum fyrir reykvísk börn

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Borgarstjóri telur nauðsynlegt að hnykkja á því í samningum við sjálfstætt starfandi leikskóla í Reykjavík, að reykvísk börn hafi þar forgang. Börnum úr öðrum sveitarfélögum hafi fjölgað inni á sjálfstætt starfandi leikskólum og það skapi ákveðinn vanda. Sjálfstætt starfandi leikskólar hafi til að mynda tekið inn færri börn úr Reykjavík haustið 2022 heldur en 2021 þrátt fyrir að plássum þar hafi verið fjölgað.

Þetta sé ein ástæða fyrir því að ekki hafi verið hægt að bjóða börnum niður í 12 mánaða pláss á leikskólum borgarinnar. Hinar ástæðurnar séu tafir á framkvæmdum við nýja leikskóla og sú staðreynd að ekki sé hægt að fullnýta öll ný pláss fyrir ný börn vegna framkvæmda á eldri leikskólum.

Innritun hófst á leikskóla Reykjavíkurborgar á þriðjudag og nú þegar hafa foreldrar rúmlega 500 barna fengið boð um pláss, en boðin eru send út eftir kennitöluröð. Fyrir liggur að færri börn fá pláss næsta haust en gert var ráð fyrir vegna viðhalds og endurbóta á húsnæði sjö leikskóla.

Gert er ráð fyrir að tæplega 1.200 börnum verði boðið pláss í þessari fyrstu lotu innritunar sem stendur yfir til 17. apríl, en 1.415 börn 12 mánaða og eldri eru á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík. Yngstu börnin sem fá boð núna eru fædd í febrúar 2022 og verða því 18 mánaða í september. Þá er gert ráð fyrir að innritun verði endurskoðuð í haust þegar staða á framkvæmdum liggur endanlega fyrir.

Dagur segir þó enga töfralausn í augnsýn fyrir foreldra yngstu barnanna sem munu ekki fá leikskólapláss í haust miðað stöðuna eins og hún er í dag,

Staðan líklega svipuð og síðasta haust

„Staðan er að skýrast næsta mánuðinn. Það sem fór af stað í þessari viku var stóra innritunin, þannig að mjög margar fjölskyldur fengu boð um tiltekin pláss og hafa fimm daga til að svara hvort þær þiggja það pláss. Þá verða eftir pláss sem verða boðin þeim sem eru næstir í forgangsröðinni. Svona fer þetta koll af kolli,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við mbl.is.

„Ástæðan fyrir því að þetta tekur svona tíma er að það er ekki í öllum tilvikum sem pláss eru þegin eða fólk fær nákvæmlega það sem var að biðja um. Við munum vera með skýrari mynd af þessu um miðjan apríl.“

Hann segir hins vegar ýmislegt benda til þess að staðan verði svipuð og síðasta haust. Þá var bið á því að ákveðnir hópar barna kæmust inn á leikskóla vegna þess að framkvæmdum við nýja leikskóla, sem þau höfðu þau fengið pláss á, var ekki lokið.

Plássum fjölgað en færri börn komast inn

„Það sem er að bætast við núna er að við getum ekki fullnýtt þessi nýju pláss sem hlaupa á hundruðum, vegna þess að við erum að nota hluta þessara leikskóla fyrir börn sem voru þegar komin inn í aðra leikskóla þar sem við erum í stórum endurbóta og viðhaldsframkvæmdum. Þetta tvennt spilar saman,“ segir Dagur.

„Þriðji þátturinn er að í fyrra gerðum við ráð fyrir að fjöldi barna sem kæmist inn á sjálftætt starfandi leikskóla væri áfram umtalsverður en sjálfstætt starfandi skólarnir tóku mun færri börn en við bjuggumst við. Við höfum verið í samvinnu við skólana og hvatt þá til að fjölga plássum út af Brúum bilið-verkefninu og höfðum séð að plássum var að fjölga, en þegar til kom komust mun færri börn inn hjá sjálfstætt starfandi skólum 2022 heldur en 2021.“

Hann segir skýringuna að einhverju leyti vera að sjálfstætt starfandi leikskólar séu einnig í framkvæmdum, en fleira kemur til.

„Að einhverju leyti virðist vera sem það hafi eitthvað fjölgað í hópi barna frá öðrum sveitarfélögum inni í skólunum. Þetta er eitthvað sem við erum að skoða því við erum í samningum við skólana um endurnýjaða samninga og þurfum hugsanlega að hnykkja á forgangsákvæðum varðandi reykvísk börn inn í þessa skóla. Okkur sýnist að það geti verið fullt tilefni til þess,“ segir Dagur, en í dag eru 17 sjálfstætt starfandi leikskólar í Reykjavík sem njóta fjárhagsstuðnings frá borginni.

Gengið út frá því að reykvísk börn færu á Korpukot

Greint var frá því á mbl.is í gær að Mosfellsbær hygðist semja við Korpukot, sem er sjálfstætt starfandi leikskóli í Grafarvogi og hýsti áður leikskólann Bakka, um að taka við 50 leikskólabörnum næsta haust. Jafnframt kom fram að nú þegar væru 22 börn með lögheimili í Mosfellsbæ á leikskólanum.

Dagur segir þetta ekki í samræmi við það sem rætt hafi verið um.

„Í öllum okkar samtölum um leigu á þessu húsnæði til Korpukots hefur verið gengið út frá því að þar væru reykvísk börn í forgang.“

Spurður hvort verði hægt sé að grípa til einhverra aðgerða til að koma í veg fyrir að samningur á milli Mosfellsbæjar og Korpukots gangi eftir, segir Dagur Reykjavíkurborg ekki enn hafa gengið frá samningum við Korpukot um leigu á húsnæðinu og rekstarleyfi. Starfsemi Korpukots er því ekki hafin í umæddu húsnæði.

„Þetta er eitt af því sem við þurfum að fara yfir.“

Það hefur semsagt verið gengið út frá því í viðræðunum að þarna inn færu reykvísk börn?

„Já, það hefur verið gengið út frá því í öllum viðræðum að reykvísk börn verði þar í forgangi,“ segir Dagur, en málið sé í ferli hjá skóla- og frístundasviði.

„Ég á ekki von á því að borgin breyti þeirri grunnafstöðu sinni sem við teljum að eigi að gilda um alla sambærilega samninga, að fólk sem býr í hverfinu, þá Reykvíkinga í þessu tilfelli, hafi forgang. Það er bæði sanngjarnt og líka langumhverfisvænast.“

Hann segir horft á málið frá mörgum vígstöðvum, enda muni um hvert einasta pláss

12 mánaða áttu að komast inn miðað við spár 

Í mars í fyrra sendi borgin frá sér tilkynningu um að farið yrði að bjóða börnum niður í 12 mánaða pláss á leikskólum borgarinnar um haustið, en það hefur ekki gengið eftir.

Spurður út í þá áætlun segir Dagur að miðað við spár og þær forsendur sem lágu fyrir á þeim tíma hafi börn sem urðu 12 mánaða í september síðastliðnum átt að komast inn á leikskóla.

„Það átti svo sannarlega við um einhver þeirra en það dróst hjá öðrum, meðal annars vegna seinkunnar framkvæmda. En það sem er að bætast við núna eru þessar gríðarlegu umfangsmiklu viðhalds og endurbótaframkvæmdir. Við erum að gera allt sem við getum til að hraða því og leigja viðbótarhúsnæði fyrir skóla sem þurfa að flytja tímabundið til þess að það bitni sem minnst á nýjum innritunum. Því markmiðið með að fjölga leikskólum er að brúa bilið og komast mikið neðar í aldri.“

Á síðasta ári voru opnaðir sex nýir leikskólar á vegum Reykjavíkurborgar og með því sköpuðust 588 ný pláss, en vegna framkvæmdanna er stór hluti þeirra nýttur fyrir börn sem þegar eru með pláss.

„Það er rosalega mikið og hefði skipt rosalegu máli að hafa það til ráðstöfunar til að fara neðar í aldri. Við vonum því að framkvæmir klárist fljótt til að börn og starfsfólk komist til síns heima.“

Svona hafi þetta verið áratugum saman

Dagur segist hafa mikla samúð foreldrum sem eru í þeirri stöðu að lenda í vandræðum eftir að fæðingarorlofi lýkur því þeir fá ekki dagvistun fyrir börn sín. Fólki sem sé jafnvel tekjulaust því það getur ekki snúið aftur til vinnu eftir fæðingarorlof.

„Svona hefur þetta verið í raun áratugum saman að fjölskyldur hafa verið skildar eftir með það úrlausnarefni hvernig er hægt að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Fólk er í mjög mismunandi aðstöðu til að gera það og þess vegna erum við að setja marga milljarða á ári í að byggja nýja leikskóla og ráða fleira starfsfólk því við viljum brúa þetta bil.“

Þá segir hann að borgin vilji gjarnan fá fleiri dagforeldra til starfa og á undanförnum árum hafi gamlir gæsluvellir verið auglýstir sem aðstaða fyrir dagforeldra. Til staðar stofnstyrkir sem er til skoðunar að hækka. Þá sé að einnig til skoðunar hvort það sé nógu vel kynnt að fólk geti unnið sem dagforeldrar og fengið niðurgreiðslu.

Töfralausnin væri lenging fæðingarorlofs

Ég held að fólk heyri þetta alveg, þið eruð að skoða þetta og hitt, en eruð þið með einhverjar lausnir fyrir foreldra á næstu vikum eða mánuðum? Foreldra sem gerðu ráð fyrir því að 12 mánaða börnin þeirra kæmust inn á leikskóla?

„Nei, við eigum enga þannig töfralausn. Ég held það væri ekki sanngjarnt að segja það. Það sem myndi muna mest um væri ef við gætum nýtt þessa nýju leikskóla fyrir þessar nýju innritanir. Við höfum verið að mæta starfsumhverfinu í leikskólum til að gera leikskólana að ennþá áhugaverðari vinnustöðum. Bæta kjörin þar og svo framvegis. Við munum halda áfram að reyna að ráða fólk. Eina töfralausnin í þessu væri ef Alþingi myndi yfir nótt lengja fæðingarorlofið, það tekur engan tíma,“ segir Dagur.

Hann heyri það hjá foreldrum margra ungra barna sem hafi komið í Ráðhúsið að ákveðinn hópur myndi kjósa að vera lengur heima með börn sín í fæðingarorlofi.

„En það er auðvitað ekki eitthvað sem borgin hefur í hendi sér. En í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar kemur fram að ríkisstjórnin ætli að horfa til þess að koma að því að brúa bilið. Kannski er þar undirliggjandi hugmynd um að lengja fæðingarorlofið.“

Staðan virðist verri því málin séu tekið föstum tökum 

Spurður út í ástand leikskólahúsnæðis í Reykjavík, af hverju staðan sé svona slæm. Hvort allar þessar framkvæmdir hafi verið ófyrirséðar og hvort um sé að ræða margra ára skort á viðhaldi, segir Dagur um blandaðar ástæður að ræða.

„Þegar við fórum að fá svona stór verkefni í fangið fyrir nokkrum árum þá fórum við í heildarúttekt alls leikskóla-, grunnskóla- og frístundahúsnæðis í borginni og við settum upp nýjan verkferil þar sem stjórnendur, starfsfólk og aðrir geta látið vita ef þau hafa áhyggjur og við förum í málin. Það er í grunninn gríðarlega jákvætt og þegar við verðum búin að vinna okkur í gegnum þennan skafl, þá verðum við á allt öðrum stað, en það tekur rosalega á meðan á því stendur.“

Hann bendir á að fyrir skemmstu hafi verið kynnt í borgarráði forgangsröðun fyrir 30 milljarða viðhalds- og endurbótaverkefni til næstu ára. „Þannig okkur er full alvara með því að hafa þessa hluti í lagi.“

Dagur telur að ástæðan fyrir því að leikskólahúsnæði í Reykjavík virðist vera í sérstaklega slæmu ástandi sé að borgin sé að taka málin fastari tökum en annars staðar sé gert.

„Ég er sannfærður um að þú gætir skoðað sama atvinnuhúsnæði sem er þá væri svipað ástand og við erum að rekast á hjá borginni. Við vitum það beinlínis því í tengslum við einstök endurbótamál höfum við skoðað ótrúlega mikið af húsnæði til að koma skólastarf fyrir og og það er mjög lítið af húsnæði sem uppfyllir þær ríku kröfur sem við gerum til skólahúsnæðis.

Ég held að þetta sé risastórt samfélagslegt verkefni og Reykjavíkurborg hafi verið mjög mikið í umræðunni því við erum að fara á undan og taka málin föstum tökum. Ég hugsa að aðrir munu fylgja eftir á næstu árum og áratugum.“

mbl.is