Endurbætur hafa áhrif á innritun í sjö leikskóla

Barnagildum á hvern starfsmann hefur verið fækkað á leikskólum til …
Barnagildum á hvern starfsmann hefur verið fækkað á leikskólum til að auka rými hvers barns. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki verður tekið við nýjum börnum í haust á leikskólann Laugasól í Laugardalnum, vegna endurbóta og viðgerða og endurbætur á húsnæði mun hafa áhrif á innritun í sex aðra leikskóla í Reykjavík.

Það eru Grandaborg og Gullborg, en vegna framkvæmda í Grandaborg hefur börnum þaðan verið fundin pláss í nágrannaleikskólanum Gullborg. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir við Fífuborg í sumar en starfsemi leikskólans færist yfir í Húsaskóla tímabundið og verða því færri ný börn tekin inn. Þá eru einnig framkvæmdir við Hlíð og Hálsaskóg sem hafa áhrif á inntöku barna í Ævintýraborgunum við Nauthólsveg og Vogabyggð vegna þess að starfsemin hefur eða mun flytjast tímabundið þangað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Á leikskólunum Árborg, Vesturborg, Kvistaborg og Sunnuás verða einnig tímabundið tekin inn færri börn vegna framkvæmda og flutnings á starfsemi. Búist er við að starfsemi Sunnuáss flytjist frá Kringlunni 1 aftur á lóð skólans við Dyngjuveg síðla sumars en unnið er að því að koma fyrir færanlegum stofum þar.

Framkvæmdum við Nóaborg og Furuskóg er lokið, að fram kemur í tilkynningunni en framkvæmdir í öðrum í leikskólum Reykjavíkurborgar munu ekki hafa áhrif á inntöku barna í haust. 

Þá er tekið fram að að engin börn hafi misst leikskólapláss sín vegna endurbóta og annarra framkvæmda í Reykjavík. 

Stóra úthlutunin hefst á morgun 

Á morgun, þriðjudaginn 14. mars, hefst úthlutun leikskólaplássa í Reykjavík fyrir næsta haust og geta foreldrar barna sem sótt hafa um í borgarreknum skólum búist við að fá send boð um pláss á næstu vikum. Ekki verður hins vegar byrjað að raða umsóknum sem berast eftir 14. mars í forgangsröð fyrr en eftir að stóru úthlutuninni lýkur 17. apríl næstkomandi.  

Hvað meðalaldur barna við inntöku varðar segir í tilkynningunni að erfitt sé að fullyrða um það, en í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að meðalaldur barna við inntöku hafi verið 21 mánaða í febrúar síðastliðnum.

Börnum fækkað til að auka rými 

Á síðasta ári voru fjórir nýir leikskólar opnaðir í Reykjavík og nýjar deildir teknar í notkun við eldri leikskóla, en unnið er að því að fjölga leikskólaplássum í borginni í gegnum Brúum bilið aðgerðaráætlunina.

„Hins vegar hefur á sama tíma staðið yfir annað metnaðarfullt átak í húsnæðismálum grunnskóla og leikskóla sem miðar að því að uppfæra eldra húsnæði og bæta innivist og mun það til skemmri tíma hafa áhrif á stöðuna hvað varðar inntöku nýrra barna. Misjafnlega vel hefur gengið að fylla lausar stöður í leikskólum sem einnig hefur áhrif á fjölda leikskólaplássa sem eru í boði,“ segir í tilkynningunni frá borginni 

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að leikskólaplássum á leikskólum Reykjavíkurborgar hafi fækkað um 680 á árunum 2014 til 2022. En helsta skýringin á fækkun plássa á árunum 2015 til 2020 er ákvörðun um að fækka barnagildum á hvern starfsmann í áföngum og auka rými fyrir hvert barn. Þeirri vinnu lauk árið 2020 og fór leikskólaplássum þá aftur að fjölga, að segir í tilkynningunni.

Í Reykjavík eru einnig 17 sjálfsstætt starfandi leikskólar sem njóta fjárhagslegs stuðnings frá borginni, en gert er ráð að 300 til 400 börn fái pláss í þeim í haust. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert