12 mánaða börnum boðið í leikskóla í haust

Leikskóli leikvöllur börn sandkassi
Leikskóli leikvöllur börn sandkassi mbl.is/​Hari

Sjö nýir leikskólar opna í Reykjavíkurborg á þessu ári og stefnir borgin að því að taka í notkun 850 ný leikskólarými samhliða því. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Reykjavíkurborg sendi frá sér í dag. 

Er þessi aukning í leikskólarýmum partur af verkefni Reykjavíkurborgar undir nafninu Brúum bilið sem vinnur að því að minnka tímann á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Verkefnið nær frá árinu 2018 til ársins 2025 en það var nýlega endurskoðað vegna nýrra mannfjöldaspár sem gerir ráð fyrir verulegri fjölgun barna á leikskólaaldri á komandi árum.  

Endurskoðuð heildaráætlun var lögð fyrir borgarráð í dag og gerir ný áætlun ráð fyrir ríflega tvöfalt fleiri nýjum plássum en upprunaleg áætlun gerði ráð fyrir. Í því felst að fjölga plássum á leikskólum borgarinnar um allt að 1680 pláss á næstu þremur árum.  

Í staðinn fyrir að stofnaðir verða fimm nýir leikskólar verða þeir nú alls tíu. Til viðbótar við það verða opnaðir fjórir nýir leikskólar sem kallast Ævintýraborgir sem starfa í anda ReggioEmilia-stefnunnar. Þar að auki verða að lágmarki 220 ný pláss í sjálfstætt reknum leikskólum í stað 166 nýrra plássa sem upprunalega var lagt til með.  

Byrjað verður á að taka á móti 12 mánaða börnum í leiksóla borgarinnar í haust. Innritun í þau pláss hefst síðar í mars mánuði.  

mbl.is