Kristrún með alla þræði flokksins í hendi sér

Eiríkur segir sjónarsvipti af Helgu Völu enda hafi hún verið …
Eiríkur segir sjónarsvipti af Helgu Völu enda hafi hún verið verulega öflugur stjórnmálamaður, skelegg og afgerandi. Samsett mynd

„Það er allt enn þá til staðar þarna og ég sé ekki fram á að það fari með Helgu Völu,“ segir Eiríkur Bergmann, pró­fess­or í stjórn­mála­fræði við Há­skól­ann á Bif­röst, spurður hvort ákvörðun Helgu Völu Helgadóttur um að láta af þingmennsku hafi áhrif á nýlegt uppgengi Samfylkingarinnar.

Hann segir engu að síður sjónarsvipti af Helgu Völu enda hafi hún verið verulega öflugur stjórnmálamaður, skelegg og afgerandi.

Áherslur Helgu Völu hverfi ekki úr flokknum

Eiríkur segir brotthvarf Helgu Völu sýna að forystubreyting hafi orðið í flokknum og sé enn ein staðfesting þess að Kristrún Frostadóttir sé komin með alla þræði flokksins í hendi sér. 

Hann segir vissulega einhvern áherslumun hafa verið á milli þeirra flokkssystra en kveðst alls ekki telja að áherslur Helgu Völu hverfi úr flokknum þó hún hverfi af þingi, né að flokkurinn færist nær miðju. 

„[Áherslurnar] eru mjög ríkar, mjög víða í þessum flokki,“ segir Eiríkur og nefnir sem dæmi Evrópusambandsaðild, breytingar á stjórnarskrá og umhverfisvernd. 

Konur endi frekar stjórnmálaferil af eigin frumkvæði

Hann kveðst ekki þora að fullyrða um ástæðu ákvörðunar Helgu Völu enda geti verið margt sem spili þar inn í, bæði persónulegt og pólitískt. Það sé hins vega áhugavert að hún velji að stíga til hliðar meðan leikurinn er góður. 

„Eins og þetta blasir við núna þá er þetta bara manneskja sem stígur til hliðar. Mér finnst nú alltaf sjálfum virðingarvert þegar stjórnmálamenn stíga sjálfir út af vellinum og ákveða sjálfir útgöngu sína úr stjórnmálum, því flestir stjórnmálaferlar enda nú með tapi,“ segir Eiríkur.

Þá segir Eiríkur áhugavert að geta þess að í seinni tíð hafi það frekar verið konur sem hafi endað feril sinn í stjórnmálum af eigin frumkvæði.

Óþol í garð ríkisstjórnarinnar eykur fylgi

Spurður hvort hvarf Helgu Völu af þingi kunni að hafa áhrif á þá velgengni sem flokkurinn hefur notið í skoðanakönnunum að undanförnu kveðst Eiríkur ekki endilega eiga von á því. Hann telji tvo þætti skýra aukið fylgi Samfylkingarinnar. 

„Annað er að hann hefur farið aftur í grunngildi jafnaðarstefnunnar, sem er kjarabaráttan, og einbeitt sér að henni og hefur sett önnur og nýrri mál í aftari sæti,“ segir Eiríkur.

„Hitt atriðið sem skýrir þessa miklu fylgisaukningu er einfaldlega óþol í garð ríkisstjórnarinnar,“ bætir hann við og segir verulega þreytu og gremju hafa grafið um sig í á meðal stjórnarflokkana sem síðar birtist í minnkandi fylgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert