Ítrekar mikilvægi Fossvogsbrúar

Andri Steinn Hilmarsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, segir fyrirhugaða Fossvogsbrú …
Andri Steinn Hilmarsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, segir fyrirhugaða Fossvogsbrú einna besta til þess fallna að gera almenningssamgöngur samkeppnishæfari við almenna umferð. Vilhjálmur Árnason, alþingismaður og flokksbróðir Andra, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að fullt tilefni sé til að endurskoða brúarframkvæmdina eins og aðrar stórar framkvæmdir sem ríkið fer í. Samsett mynd

Andri Steinn Hilmarsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, segir fyrirhugaða Fossvogsbrú einna besta til þess fallna að gera almenningssamgöngur samkeppnishæfari við almenna umferð.

„Það er eitthvað sem okkur, sem stöndum í stafni hér í Kópavogi, hugnast mjög og þannig er okkur mikið í mun að brúin rísi og að áætlanir standist.“

Áætlaður kostnaður við brúna er nú tæplega fjórum milljörðum hærri en lagt var upp með í frumdrögum að fyrstu lotu borgarlínu sem komu út árið 2021.

Er áætlaður kostnaður við brúna nú 6,1 milljarður króna og við hann bætist 1,4 milljarða króna kostnaður vegna landfyllinga.

Bætir almenningssamgöngur strax

Er einhugur í bæjarstjórn?

„Án þess að hafa tekið púlsinn á línunni. Þessi meirihluti er sannarlega samstíga og ég tel að minnihlutaflokkarnir séu það líka.“

Vilhjálmur Árnason, alþingismaður og flokksbróðir Andra, sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að fullt tilefni sé til að endurskoða brúarframkvæmdina eins og aðrar stórar framkvæmdir sem ríkið fer í.

Andri segir brúna eiga sér langan aðdraganda en í hátt í tíu ár hafi legið fyrir að farið yrði í hana.

„Allt skipulag á Kársnesinu hefur tekið mið af því að þessi brú kæmi en undanfarin ár hefur farið fram mikil uppbygging þar. Þetta endurspeglast í því að almenningssamgöngur komi til með að keyra yfir brúna sem er hluti af þessum fyrsta áfanga borgarlínu sem átti reyndar að vera lokið á þessu ári.

Það er mjög aðkallandi að þessi framkvæmd klárist enda tekur skipulagið mið af því að fólk nýti í auknum mæli almenningssamgöngur, gangi eða hjóli til vinnu. Við erum að miða við það að hlutur ferða í fólksbíl minnki úr 76% í 58% svo ég taki nú dæmi. Þessi framkvæmd er ein þeirra framkvæmda í samgöngusáttmálanum sem bætir almenningssamgöngur strax.“

Horft inn Fossvoginn og yfir vinningstillöguna að nýrri Fossvogsbrú.
Horft inn Fossvoginn og yfir vinningstillöguna að nýrri Fossvogsbrú. Ljósmynd/Alda

Forsendubrestur ef brúin rís ekki

Þá segir Andri að nýtt leiðarkerfi Strætó geri ráð fyrir því að brú rísi yfir Fossvog. Segir hann áhyggjuefni ef ekki verði af því að brúin rísi. Aðspurður segir hann að ákveðinn forsendubrestur verði og að fólk og fyrirtæki á svæðinu geti talið sig hlunnfarin eða svikin verði ekki af framkvæmdinni.

„Það hafa margir flutt á Kársnesið og í gildandi aðalskipulagi Kópavogs er gert ráð fyrir að íbúðum á svæðinu fjölgi um tæp 1.400 og þegar hefur verið flutt í mörg þeirra húsa sem risið hafa á nýliðnum árum. Þetta fólk hefur alltaf haft vitneskju um að þarna kæmi brú fljótlega.“

Bæjarfulltrúinn segir alveg eðlilegt að fólk setji spurningarmerki við þær áætlanir sem voru gerðar á upphafsstigum hvað allar framkvæmdir varðar í samgöngusáttmálanum enda hafi þær vaxið gríðarlega í kostnaði og sú áætlanagerð standist engan veginn.

„Það breytir hins vegar ekki þörfinni á að þessi brúartenging komi, sem er ein þeirra aðgerða í samgöngusáttmálanum sem er best til þess fallin að styðja við almenningssamgöngur.“

Andri segir íbúasvæðið sem komi til með að nýta sér þessa tengingu telja rúmlega 100 þúsund manns, það er Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær og Álftanes.

„Þetta eru mikið til hópar sem sækja í skóla eða vinnu vestur í bæ og með þeirri tengingu sem kemur með tilkomu þessarar brúar má segja að Strætó fái einskonar bakdyraleið inn á þetta stóra atvinnusvæði sem miðbærinn er.“

Segir hann fólki hafa fjölgað töluvert hraðar á höfuðborgarsvæðinu en áætlanir hafi gert ráð fyrir og umferðin að sama skapi þyngst og að þannig hljótum við að þurfa að spyrja okkur hvernig við ætlum að leysa þessi mál.

Hugmyndir sem geta farið saman

Vilhjálmur viðraði í samtali við Morgunblaðið í dag hugmyndir um jarðgöng úr Hafnarfirði vestur í bæ. Andri segist viðurkenna að hann þekki hugmyndina ekki sérstaklega vel en segir jákvætt að menn skoði alls konar hugmyndir, þessa sem aðrar.

„Þetta er um margt líkt hugmyndum um Sundabraut. Þetta er stór framkvæmd sem er hugsuð til þess að greiða fyrir umferð á höfuðborgarsvæðinu en það má ekki gleyma því að við erum um leið að skipuleggja hverfin okkar á þessum þéttingarásum í kringum almenningssamgöngur sem munu liggja mjög greiðlega til og frá, ekki bara í Kópavogi heldur um allt höfuðborgarsvæðið.

Þar eru færri bílastæði og gert er ráð fyrir að fólk nýti sér almenningssamgöngurnar. Ef við ákveðum að fara skref afturábak í þeim efnum munum við standa frammi fyrir miklum vandamálum í þessum hverfum sem skipulögð hafa verið með þessum hætti á undanförnum árum.”

Hvað hugmyndir um jarðgöng varðar segist Andri eiga bágt með að sjá það að einhver geri sér ferð af Kársnesinu eða úr Kópavogi upp í Hafnarfjörð til að komast í göng vestur í bæ.

„Þannig er ekki hægt að stilla þessum kostum upp sem andstæðum heldur þvert á móti hugmyndum sem gætu þess vegna farið saman án þess að ég vilji blanda þeim hugmyndum við þessa brú sérstaklega,“ segir Andri, sem vildi að lokum ítreka mikilvægi þess að brúin rísi eins og áætlanir hafi gert ráð fyrir í hátt í áratug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert