Kvikan gæti verið komin á 400 metra dýpi

Frá aðgerðum í Grindavík í dag.
Frá aðgerðum í Grindavík í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði í Háskóla Íslands, segir nýjar mælingar á brennisteinsgasi gefa til kynna að kvika hafi færst ofar í jarðskorpuna.

Hann segir kvikuna nú mögulega liggja á 400-500 metra dýpi.

Þorvaldur Þórðarson tekur fram að það geti tekið tíma fyrir …
Þorvaldur Þórðarson tekur fram að það geti tekið tíma fyrir kvikuna að brjótast upp. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svipað og að hrista kókflösku

„Ef þetta er brennisteinn sem er að koma beint úr kvikunni, þá er hún komin það grunnt,“ segir Þorvaldur. Hann segir kviku þurfa að vera komna á um 500 metra dýpi til þess að geta leyst brennisteinsgas. Þegar þrýstingurinn lækki geti kvikan komið til með að leysa gasið úr sér. 

Þetta er svipað og þegar þú hristir kókflösku og tekur síðan tappann af. Þá verður þrýstingsléttir og þá kemur gosið upp,“ segir Þorvaldur. 

Þannig að til þess að gasið farið að leita út þarf kvikan að vera komin upp á einhvern ákveðinn þrýsting eða ákveðið dýpi.

Greint var frá því á mbl.is í dag að Veðurstofan hefði sett upp gasmæla, sem nýst gætu til að gefa aukinn fyrirvara á yfirvofandi eldgosi. Síðar í dag, eða rétt fyrir klukkan 15, var ákveðið að rýma Grindavík eftir að brennisteinsgas hafði mælst í andrúmsloftinu.

Sumir íbúar fengu að sækja verðmæti á heimili sín í …
Sumir íbúar fengu að sækja verðmæti á heimili sín í Grindavík í dag, en aðeins í takmarkaðan tíma. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eitthvað sem tefur uppgöngu kvikunnar

Spurður hvort staða kvikunnar bendi til þess að eldgos sé í aðsigi segist Þorvaldur ekki geta fullyrt hvort sú sé raunin.

„Ég veit það ekki, maður hefði haldið það, en það er eins og að það sé líka einhver fyrirstaða,“ segir Þorvaldur. 

„Það er eitthvað sem er að tefja uppgöngu kvikunnar, alla vega hérna inni í Grindavík. Því ef við horfum bara á allar tölur í þessu og stærðir þá er 400 eða 500 metra dýpi eiginlega ekki neitt. Maður myndi halda að hún ætti tiltölulega greiða leið eftir það upp á yfirborð.

En það er eitthvað sem virðist tefja hana og hún mun þá reyna að finna sér einhverja aðra leið upp, sem er bara hið besta mál í sjálfu sér. Þetta má alveg tefja hana eins mikið og það vill.“

Mikil óvissa ríkir um þróun mála næstu daga en eldgos …
Mikil óvissa ríkir um þróun mála næstu daga en eldgos þykir enn mjög líklegt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Túlkunin gæti verið röng

Þorvaldur tekur fram að það geti tekið tíma fyrir kvikuna að brjótast upp og að ekki liggi fyrir hvað um sé að ræða langan tíma.

Þá leggur hann áherslu því að dýpi kvikunnar sé ekki tala sem hægt sé að staðhæfa, heldur túlkun sem byggð sé á þeirri þekkingu sem sérfræðingar búi yfir og þeim upplýsingum sem liggi fyrir. 

„Þetta er bara túlkun. Og túlkun getur verið röng,“ segir Þorvaldur loks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert