Brennisteinsgas mælist í andrúmsloftinu

Horft yfir Grindavík í dag.
Horft yfir Grindavík í dag. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri hjá Veðurstofunni, segir að ekki sé hægt að fullyrða að hærri gildi brennisteinsgass í mælingum séu til marks um að gos sé að hefjast.

Ákveðið var að grípa til skyndilegrar rýmingar í Grindavík um þrjúleytið í dag og var það gert í varúðarskyni að sögn Benedikts eftir að mælar mældu meira brennisteinsgas í andrúmslofti.

Mælarnir gætu gefið vísbendingu

„Við settum upp mæla sem nema brennisteinsdíoxíð í andrúmslofti og það er það gas sem losnar úr kviku þegar hún er komin tiltölulega nálægt yfirborði. Það þýðir nokkur hundruð metra,“ segir Benedikt.

„Við höfum oft notað þessa mæla í eldgosum til þess að vara við gasmengun en í þessu tilfelli erum við farin að sjá brennisteinsdíoxíð í andrúmsloftinu yfir svæðinu núna. Við getum ekki fullyrt að þetta sé byrjunin á gosi og við erum ekki að sjá merki um það af þessum hefðbundnu merkjum sem við notum til að mæla skjálftaóróa.“

Mæl­arn­ir ættu að gefa vís­inda­mönn­um betri mögu­leika á segja til um yf­ir­vof­andi eld­gos, eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag. Leiti gildi brenni­steinsgass í and­rúms­loft­inu upp á við gæti það bent til þess að kvika sé kom­in nær yf­ir­borði og tek­in að afgasast þar.

Ákvörðun tekin í varúðarskyni

Hann segir að Veðurstofan hafi ekki fyrri reynslu af því að nota slíka mæla sem fyrirvara fyrir gos.

„Við erum ekki að segja að það sé að byrja gos en við létum aftur á móti lögreglu og almannavarnir vita af þessu merki og sú ákvörðun var tekin að taka allra mestu varfærni sem hægt er að gera og rýma svæðið út frá þessum upplýsingum frá okkur,“ segir Benedikt.

„Við erum ekki að mæla hækkandi gildi en sjáum að það er brennisteinsdíoxíð í andrúmsloftinu. Vandamálið við þessa mælingar er að þær byggja á ljósnæmni og mælingarnar eru erfiðar á veturna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert