Braut gegn konum í Eyjum

Brotin áttu sér stað í Vestmannaeyjum.
Brotin áttu sér stað í Vestmannaeyjum. mbl.is/mbl.is

Héraðsdómur Suðurlands hefur sakfellt Bergvin Oddsson, fyrrverandi formann Blindrafélags Íslands, fyrir kynferðislega áreitni gegn þremur konum.

Brotin áttu sér stað 7. júlí 2020, 1. júní 2021 og 20. júní 2022. Þau voru öll framin í Vestmannaeyjum.

Bergvin var dæmdur í sjö mánaða skilorðsbundið fangelsi og þarf hann að greiða brotaþolum tæpar tvær milljónir samtals, með vöxtum. Þá þarf hann einnig að greiða allan sakarkostnað.

Átti sér stað á farfuglaheimili

Fyrsta brotið átti sér stað í herbergi á farfuglaheimili eftir starfsmannateiti. Bergvin var gefið að sök að hafa strokið brjóst konu og rass hennar utanklæða, en hún var starfsmaður á veitingastað hans. Bergvin játaði að hafa storkið brjóst hennar en neitaði því að hafa strokið rass hennar. 

Bergvin hélt því hins vegar fram að hann og konan hafi verið í góðu tómi á herbergi hennar, spjallað og haldist í hendur áður en hann hafi snert brjóst hennar. Dómurinn taldi þessa frásögn ótrúverðuga, þar sem konan var í föstu sambandi á þessum tíma og mátti búast við kærasta sínum í herbergi þeirra á hverri stundu. 

Talið var sannað að Bergvin hafi storkið brjóst konunnar utanklæða án samþykkis, en ekki var talið sannað að hann hafi strokið rass hennar.

Baðst afsökunar á hegðun sinni

Annað brotið átti sér stað átti sér einnig stað á starfsmannateiti, en það var á veitingastað Bergvins. Bergvin var gefið að sök að hafa strokið læri konu, sem var starfsmaður hans, og slegið hana að minnsta kosti einu sinni á rassinn.

Hjá lögreglu kvað Bergvin að vera kynni að hann hafi snert læri konunnar en kvað af og frá að það hefði verið í kynferðislegum tilgangi eða að hann hafi farið með hönd upp eftir lærinu. Hjá lögreglu kannaðist Bergvin við að hafa slegið í rass konunnar umrætt sinn, en það hafi verið óvart þar sem hann hafi ætlað að slá hana í bakið. Við aðalmeðferð kvaðst hann ekki vita til þess að hafa slegið í rass konunnar, en kvaðst ekki geta fortekið að höggið hafi lent á rassi hennar. Hann hafi ætlað að slá hana í bakið til að lækna hana af hiksta sem hún var með.

Vitni í málinu studdu framburð konunnar, sem og myndband sem konan tók upp. Í upptökunni heyrist hár smellur og um leið segir Begrvin „nú hættir hikstinn“. Þegar smellurinn kveður við segir konan „ái“ og svo segir hún að hikstinn sé ekki hættur. „Smellurinn sem heyrist þegar hönd ákærða smellur á brotaþola hljómar ekki eins og höndin lendi á baki brotaþola, heldur þvert á móti hljómar hann frekar eins og höndin hafi lent á rassi brotaþola,“ segir í dómi héraðsdóms.

Þá var haldinn starfsmannafundur eftir kvöldið þar sem Bergvin baðst afsökunar á hegðun sinni, einkum gagnvart konunni.

Að mati dómsins var talið ljóst að rassskellurinn hafi verið af kynferðislegum toga, sem og lærisstrokan.

Sagðist hafa skynjað strauma á milli sín og konunnar

Þriðja brotið átti sér einnig stað á veitingastaðnum. Var Bergvin gefið að sök að hafa strokið brjóst konu, utanklæða og síðan strokið kynfæri hennar innanklæða. Umrædd kona var ekki starfsmaður á veitingastaðnum, eins og hinar tvær.

Hún var að borða með vinkonum sínum á veitingastaðnum, en ein vinkona hennar vann á staðnum. Konan lýsti málsatvikum þannig við lögreglu að hún hafi farið á salernið en þegar hún hafi opnað dyrnar hafi Bergvin staðið fyrir framan hana, ýtt henni aftur inn og lokað dyrunum og læst. Hann hafi staðið fyrir hurðinni þannig að hún hafi ekki komist neitt. Bergvin hafi byrjað að strjúka á henni brjóstin utanklæða og svo farið inn á hana og farið að strjúka á henni kynfærin. Þá hafi hann hvíslað í eyrað á henni hvað hún væri fínt rökuð.

Bergvin hélt því fram að hann hafi skynjað strauma á milli sín og konunnar þetta kvöld. Um þennan framburð segir dómurinn: „Af framburði brotaþola og annarra vitna er ljóst að þessi framburður ákærða á sér enga stoð í raunveruleikanum og verður ekki betur séð en að þessi framburður hans sé settur fram af hans hálfu til að fegra hlut sinn.“

Var framburður konunnar talinn einlægur og ýkjulaus. Var talið sannað að Bergvin hafi framið brotið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert