Ástþór Magnússon býður sig fram á ný

Ástþór Magnússon bauð sig seinast fram árið 2016 en eins …
Ástþór Magnússon bauð sig seinast fram árið 2016 en eins og kunnugt er hafið Guðni Th. Jóhannesson betur í þeim kosningum. mbl.is/Árni Sæberg

Ástþór Magnús­son, athafnamaður og fyrrverandi for­setafram­bjóðandi, býður sig aftur fram til embættis forseta Íslands. Hann telur þar „vanhugsað“ ef þjóðin kýs annan forseta með það hlutverk að fara í „opinberar heimsóknir“. Íslendingar þurfi að „virkja Bessastaði“.

Þetta er fjarri því að vera fyrsta forsetaframboð Ástþórs, heldur hefur hann boðið sig fram fimm sinnum. Ástþór bauð sig fyrst fram árið 1996 og seinast árið 2016. Á framboðsvefsíðu sinni greinir hann frá því að hann sækist eftir embættinu í komandi kosningum.

„Ég mun Virkja Bessastaði og gera embættið stærra og meira og um leið öfluga tekjulind fyrir Íslenska þjóð með því að laða til landsins alþjóðastofnanir friðar og mannréttinda,“ segir Ástþór, sem hlaut 615 at­kvæði í forsetakosningunum árið 2016.

Vanhugsað að kjósa forseta sem fer í „opinberar heimsóknir“

„Við erum nú komin í styrjöld við vinaþjóð okkar í Rússlandi. Í mið austurlöndum er allt á suðurpúnkti [svo] og margir telja að sú styrjöld muni breiða úr sér til nærliggjandi landa. Í raun er hætta á að þetta ástand þróist í heimsstyrjöld,“ skrifar hann og varar við því að Íran gæti dregist inn í téð átök.

„Það væri mjög vanhugsað af Íslenskri þjóð að kjósa inná Bessastaði annan forseta með það hlutverk að fara í "opinberar heimsóknir" á milli húsa í heimabyggð sinni. Nú þurfa Íslendingar að Virkja Bessastaði og nýta embætti Forseta Íslands til að stuðla að friði á alþjóða vettvangi.“

Guðni Th. Jóhannesson forseti tilkynnti í nýársávarpi sínu að hann sæktist ekki eftir forsetasetu á næsta kjörtímabili. Ástþór er nú annar frambjóðandinn í forsetakosningunum 2024 en Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi héraðsdómari, tilkynnti framboð sitt fyrr í dag auk þess sem hann tilkynntu úrsögn sína úr flokknum.

Þá kveðst Dóri DNA einnig myndu bjóða sig fram gegn því að gos hefjist á þrettándanum, 6. janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert