Virknin færist innar: Skjálftar í Húsfellsbruna

Þokuslæður sveipa skíðabrekkur Bláfjalla dulúðugri birtu. Stóra-Kóngsfell stendur skammt norðvestur …
Þokuslæður sveipa skíðabrekkur Bláfjalla dulúðugri birtu. Stóra-Kóngsfell stendur skammt norðvestur af fjöllunum. mbl.is/Árni Sæberg

Áfram mælast skjálftar suðaustur af höfuðborgarsvæðinu, norðvestur af Bláfjöllum, eftir að lítil hrina hófst þar í gær. Stærstur þeirra er enn sá sem reið yfir snemma í morgun. Var hann 3,1 að stærð samkvæmt mælingum Veðurstofu.

Seint í gærkvöldi hafði annar og minni skjálfti orðið svo að segja á sama stað, en sá mældist af stærðinni 2,4. Hátt í tuttugu smærri skjálftar hafa nú mælst á svæðinu frá því í gærmorgun.

Á sama tíma fer áfram dvínandi skjálftavirkni yfir kvikuganginum við Grindavík, en þó þykir ljóst að kvika safnast enn fyrir undir svæðinu við Svartsengi.

Vart hefur einnig orðið við litla skjálfta við Geitafell, norður af Þorlákshöfn, en mbl.is hefur áður fjallað um hrinur skjálfta á því svæði eftir að nýtt gosskeið rann upp á Reykjanesskaga.

Rétt er að taka fram að svokallaður gosórói hefur ekki komið fram á mælum.

Skjálftar á Reykjanesskaga frá miðnætti í gær, samkvæmt yfirförnum mælingum …
Skjálftar á Reykjanesskaga frá miðnætti í gær, samkvæmt yfirförnum mælingum Veðurstofu. Kort/Veðurstofa Íslands

Sendi hraun í námunda við Reykjavík

Stærstu skjálftarnir tveir, sem sjá má á kortinu að ofan, eiga upptök sín undir Húsfellsbruna. Svo nefnist hraun sem þekur stórt svæði á milli Heiðmerkur og Bláfjalla.

Dregur það nafn sitt af felli við vesturenda hraunsins, en hefur einnig verið nefnt Kóngsfellshraun – Stóra-Kóngsfell rís upp af suðurjaðrinum og stendur við afleggjarann af Bláfjallavegi og inn á skíðasvæðið sem þar er.

Þegar litið er til síðustu tíu þúsund ára, eða þess sem í jarðfræði er kallað nútími, hafa aðeins þrjár eldstöðvar sent hraun í námunda við Reykjavík.

Eldstöð við Stóra-Kóngsfell er ein þeirra.

Hinar tvær eru Búrfell austan við Hafnarfjörð og Leitin á Hellisheiði.

Kristnitökueldar

Húsfellsbruni eins og önnur hraun á svæðinu er rakið til Brennisteinsfjallakerfisins, eins nokkurra eldstöðvakerfa Reykjanesskagans, og er talið hafa runnið eftir landnám eða á 10. eða 11. öld.

Ásamt fleiri hraunum úr Brennisteinsfjallakerfinu er það talið hafa runnið í sömu eldunum, sem nefndir hafa verið Kristnitökueldar.

Þeir eldar kunna að hafa verið fyrstu hraungosin sem menn sáu eftir að hafa numið hér land.

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar …
Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir. Kort/Náttúruvá á Íslandi

Hraun rann niður í Heiðmörk og um farveg Elliðaáa

Fjallað er um Brennisteinsfjallakerfið í bókinni Náttúruvá á Íslandi, frá árinu 2013.

Segir þar að ólíkt öðrum eldstöðvakerfum skagans liggi megingosrein kerfisins um 400-500 metra háan fjallabálk.

Tekið er fram að hraun frá nyrsta hluta þeirrar gosreinar, við áðurnefnt Kóngsfell, hafi runnið niður í Heiðmörk. Hraun frá austustu gosreininni fór annars vegar til vesturs yfir Sandskeið, í Lækjarbotna, Elliðavatn og farveg Elliðaáa til sjávar í Elliðavogi, og hins vegar til austurs í Ölfus.

Rennslisleiðir hrauna frá Brennisteinsfjöllum eru sagðar fjölmargar og bent á að ljóst sé að erfitt verði að spá fyrir um leiðir þeirra ofan úr fjöllunum.

Horft yfir Brennisteinsfjöll.
Horft yfir Brennisteinsfjöll. mbl.is/RAX

Gosskeið hefjast oftast í Brennisteinsfjallakerfinu

Vitað er að síðasta goshrina á Reykjanesskaga hófst með eldsumbrotum í Brennisteinsfjallakerfinu á tíundu öld.

Þá runnu meðal annars Svínahraunsbruni frá Eldborgum við Lambafell – einnig nefnt Kristnitökuhraun, stórir hraunflákar í Húsfellsbruna komu frá Kóngsfellsgígum og Eldborg í Bláfjöllum og mikil hraun runnu frá gígaröðum í Brennisteinsfjöllum. Runnu þau meðal annars til sjávar í Herdísarvík.

Raunar hefur eldvirkni á hverju gosskeiði oftast hafist í þessu kerfi og í framhaldi færst í vestur og út með skaganum, í þau eldstöðvakerfi sem þar liggja.

Sú varð ekki raunin í þessu gosskeiði, svo mikið er víst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert