„Ekki búnir að stoppa í allan dag“

Umferðin hefur gengið hægt undanfarna daga í þeirri vetrarfærð sem …
Umferðin hefur gengið hægt undanfarna daga í þeirri vetrarfærð sem hefur ríkt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það hefur verið í nógu að snúast hjá starfsmönnum Áreksturs.is í dag en þeir hafa þurft að sinna vel á þriðja tug árekstra á höfuðborgarsvæðinu.

„Það má segja að við séum ekki búnir að stoppa í dag en ástandið var þó ekki eins slæmt og við bjuggumst við,“ segir Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri Áreksturs.is, við mbl.is.

Hann segir að aðstæður í dag hafi verið slæmar og það hafi verið erfitt að athafna sig í aðstæðunum sem hafi myndast.

„Þetta hefur tafið vinnuna hjá okkur,“ segir Kristján. Aðspurður hversu mörgum útköllum þeir hafi sinnt í dag segir hann: „Mér sýnist að þau séu orðin 25. Við höfum allir verið úti á vettvangi í allan dag,“ segir Kristján.

Hann segir að umferðin hafi verið þung í morgun en hún hafi ekki verið eins þung eftir hádegið og hann hafði búist við.

Það hefur verið í nógu að snúast hjá starfsmönnum Áreksturs.is …
Það hefur verið í nógu að snúast hjá starfsmönnum Áreksturs.is í dag. Ljósmynd/Kristján Kristjáns­son

Hafa hlustað á fyrirmælin

„Ég held að fólk hafi hlustað á þau fyrirmæli um að reyna að halda sig heima og persónulega hef ég heyrt af mörgum sem ákváðu að vinna heima í dag. Ég fagna því,“ segir Kristján.

Kristján segir að það hafi verið rosaleg törn hjá sér og hans mönnum í rúma viku. „Þetta hafa verið svo margir dagar í röð og það virðist ekkert lát vera á þessu.“

Árekstur.is aðstoðar ökumenn sem lent hafa í árekstri við að fylla út tjónaskýrslur, tryggja nákvæma skoðun á aðstæðum ásamt því að taka myndir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert