Hefðu venjulega ekki verið handteknir

Veginum frá Ísafirði til Súðavíkur var lokað síðdegis í gær …
Veginum frá Ísafirði til Súðavíkur var lokað síðdegis í gær vegna snjóflóðahættu. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Mjög sjaldgæft er að fólk virði ekki vegalokanir vegna snjóflóðahættu, að sögn Helga Jenssonar, lögreglustjóra á Vestfjörðum.

Hann segir atvik í nótt þegar tveir karlmenn voru handteknir fyrir að virða lokanirnar ekki í tvígang vera sérstakt.

„Gátum ekki staðið í þessu alla nóttina“

„Venjulega hefðu menn ekki verði handteknir út af þessu en málið er að þetta gerist í tvígang,” segir Helgi og bendir á að þeim hafi verið stranglega bannað að gera þetta í fyrra skiptið en það hafi því miður ekki dugað til.

„Við gátum ekki staðið í þessu alla nóttina og þess vegna ákváðu þeir að gera þetta svona,” bætir hann við um lögregluþjónana sem handtóku mennina.

Frá vinstri: Hlynur Hafberg Snorrason yfirlögregluþjónn, Helgi Jensson og Jónatan …
Frá vinstri: Hlynur Hafberg Snorrason yfirlögregluþjónn, Helgi Jensson og Jónatan Guðbrandsson aðstoðaryfirlögregluþjónn. Ljósmynd/Lögreglan

„Það er mjög sjaldgæft að menn hlíta þessu ekki,” heldur Helgi áfram og segir einnig sérstaklega slæmt að þeir skildu lokunarhliðið eftir opið þannig aðrir bílar gátu einnig komist í gegn.

Lögreglan setti sig í hættu

Helgi bendir á að venjulega ef fólk er í vandræðum með að komast á milli þegar vegum er lokað hringir það í viðbragðsaðila og athugar hvort það getur komist framhjá, sem yfirleitt er ekki hægt, „enda erum við ekki að þessu að gamni okkar”.

„Þarna þurfti lögreglan að keyra inn á lokað svæði sem þeir hefðu alls ekki viljað fara á, enda var búið að lýsa yfir hættustigi.”

Spurður hver viðurlögin við athæfinu eru, segir Helgi lögregluna ekki vera farna að hugsa út í þau.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert